Fara í efni

Reglugerð um kjötmat endurútgefin

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kjötmatsreglugerðin frá 1998 hefur verið endurútgefin með breytingum sem reglugerð nr. 882/2010. Í haust lagði Matvælastofnun til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að nokkrar breytingar yrðu gerðar á reglugerð nr. 484/1998 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða. Flestar þeirra eru fólgnar í aðlögun að breytingum í stjórnkerfinu á undanförnum árum, þ.e. tilkomu Matvælastofnunar, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins o.fl. auk nokkurra efnislegra breytinga.  


Þessar breytingar voru sendar hagsmunaaðilum til umsagnar og engar stórvægilegar athugasemdir bárust. Nýja reglugerðin nr. 882/2010 birtist í Stjórnatíðindum í byrjun nóvember. Hér verða efnislegar breytingar raktar og gerð nokkur grein fyrir þeim.

Ákvæði um snyrtingu, innvigtun og merkingu


 • Ekki verður lengur skylt að kljúfa bringu á sauðfjárskrokkum enda hefur MAST veitt sláturleyfishöfum undanþágu frá þeirrii skyldu undanfarin ár.
 • Hámarksskerðingu á vogum til vigtunar á kjöti og öðrum sláturafurðum er breytt úr 50g í 100g. Breytingin er einnig í samræmi við núverandi framkvæmd , of hægvirkt reyndist að vigta með  50 g nákvæmni.    
 • Með breyttri tækni við innvigtun varð sérstakur vigtarmaður óþarfur og hafa kjötmatsmenn í raun tekið að sér hlutverk hans. Hvorki sláturleyfishafar né innleggjendur hafa sýnt áhuga á því að kjötmatsmenn hljóti löggildingu sem vigtarmenn. Ekki hefur heldur verið gengið eftir því af hálfu ráðuneytisins eða viðkomandi stofnunar þess undanfarinn áratug að löggiltur vigtarmaður sé við innvigtun í sláturhúsunum. Því er lagt til að ákvæði um löggiltan vigtarmann  sé fellt niður. Í stað þess er kveðið á um ábyrgð sláturleyfishafa á vigtun og skyldur hans hvað varðar vogina.
 • Bætt er við upptalningu á þeim upplýsingum sem setja má á merkimiða skrokka. Þær helgast af auknum kröfum um merkingar, sérstaklega á kjöti sem flutt er út.


Ákvæði um lambakjöt í viðauka I


 • Sú breyting verður gerð að "dilkakjöt" verður "lambakjöt" og einkennisstafurinn "D" verður "L". Í stað "dilkaskrokka" stendur "lambaskrokka" og "Kjöt af dilkum, D IV" verður "Kjöt af lömbum, L IV".  Þessi breyting er samkvæmt óskum sláturleyfishafa og er í markaðsskyni. Þeir telja hentugra að nota “L” á lambakjöt til útflutnings og benda einnig á að “lambakjöt” sé notað almennt innanlands en “dilkakjöt” sé fátíðara. Fallist var á þessar röksemdir.
 • Ennfremur verður sú breyting  að ógeltir lambhrútar flokkast ekki lengur sem lömb eftir 1. mars þar til 12 mánaða aldri er náð. Fyrir liggur stjórnarsamþykkt Landssamtaka sláturleyfishafa frá 2005 sem styður þessa breytingu og Landssamtök sauðfjárbænda fallast einnig á hana. Erfitt er að ala ógelta lambhrúta svo að kjöt af þeim sé frambærileg markaðsvara á þessum tíma sökum megurðar. Heimilt verður að flokka lambhrúta sem lömb til 12 mánaða aldurs hafi þeir verið geltir tveimur mánuðum fyrir slátrun
 • Bætt verður við heimild til að skrá skrokka með sterkgula fitu sem gallaða.  Þessa heimild hefur skort en áhugi er á því í ræktunar- og vísindastarfi að geta skráð sérstaklega skrokka af lömbum með erfðagulu.


Ákvæði um nautakjöt í viðauka II


 • Gerðar eru breytingar til þess að gera lýsinguna á fituflokkunum M og M+ skýrari og fella niður atriði sem varðar holdfyllingu og ekki á heima í lýsingu á fituflokki. Lýsingarnar á flokkunum verða:
  M: skrokkar með mjög litla eða enga fituhulu.
  M+: skrokkar með litla fituhulu.
 • Tafla um þyngdarflokka ungneytakjöts og fitumörk er lengd úr >240 kg í >320 kg.
  Ungneyti ná nú mun meiri þyngd að jafnaði en árið 1998.
 • Lýsingu á skrokkum í 2. flokki kýrkjöts, K II,  er breytt úr “séu þeir rýrir og magrir” í “séu þeir illa holdfylltir”.Nýja orðalagið er í betra samræmi við lýsingar á hinum gæðaflokkum kýrkjöts og tekur tillit til þess að skrokkar  í þessum flokki geta haft nokkra fituhulu.


Ekki  verða nú neinar breytingar á mati svína- og hrossakjöts. Haustið 2008 stóð til, eftir nokkurn undirbúning, að taka upp nýtt matskerfi í svínakjöti sem byggðist á mælingu  á vöðvahlutfalli  skrokksins (“kjötprósentu”). Því var frestað af efnahagsástæðum um óákveðinn tíma. Þess má geta að nokkuð hefur verið rætt um að taka upp EUROP-mat á nautgripakjöti en ekki er einhugur um það sem stendur.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?