Rannsókn Matvælastofnunar á meintri illri meðferð hryssna við blóðtöku lokið
Matvælastofnun hefur lokið rannsókn sinni á erindi um illa meðferð hryssna við blóðtöku, sem fram komu í tilkynningu dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation (AWF) og Tierschutzbund Zürich (TBZ). Þá barst stofnuninni fjöldi myndbanda sem tekin voru upp á bæjum þar sem blóðtaka úr hryssum fór fram.
Matvælastofnun hefur yfirfarið framkomin gögn og greint þau atvik sem talin voru geta brotið í bága við lög um velferð dýra og metið áhrif þeirra á hryssurnar. Var það mat stofnunarinnar að á einum bæ hafi komið fram endurtekin óásættanleg meðferð á hryssum sem var metið sem alvarlegt frávik við meðferð og umgengni við hryssur. Þar sem rekstraraðili blóðtökunnar ber ábyrgð meðan á blóðtöku stendur á bænum óskaði Matvælastofnun eftir afstöðu hans til málsins.
Í svörum rekstraraðilans kom fram að kvörtunarferill hefði verið virkjaður gagnvart viðkomandi bæ sem og að einstaklingur sem aðstoðaði við rekstur hryssa á bænum hefði gengið of langt í framkomu sinni. Í úrbótaáætlun segir að einstaklingurinn muni ekki koma að meðferð hrossa á vegum rekstraraðilans meðan heimild hans til blóðtöku er í gildi.
Þá skoðaði Matvælastofnun sérstaklega starfsaðferðir dýralækna við blóðtöku á myndböndunum. Í einstaka tilviki hefði dýralæknir geta brugðist hraðar við þegar blóðtaka gekk ekki sem skyldi, en heildarmat stofnunarinnar er að þær starfsaðferðir sem hafi verið viðhafðar hafi verið innan viðmiða sem gilda um starfshætti, verklag og ábyrgð dýralækna.
Í ljósi viðbragða og úrbóta rekstraraðilans til að slík atvik eigi sér ekki stað og málsatvika í heild sinni, sem sýna að starfsemin var heilt yfir í samræmi við settar verklagreglur, hefur Matvælastofnun ákveðið að loka málinu.