Fara í efni

Rannsókn á sauðfjárdauða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 9. júní barst Matvælastofnun tilkynning um óvenjumikinn fjárdauða á Vesturlandi. Í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum var þegar hafist handa við að rannsaka málið. Nú hefur verið skrifuð áfangaskýrsla um rannsóknina fram að þessu, sem varpar ljósi á heildarmynd vandamálsins en orsök þess er þó enn óljós. Því er nauðsynlegt að áfram verði haldið með rannsóknina í haust og næsta vetur.

Í upphafi var haft símasamband við fjölmarga bændur og dýralækna um allt land til að afla upplýsinga og jafnframt var útbúinn listi yfir spurningar sem bændur voru beðnir um að svara rafrænt á Bændatorginu. Tilgangur spurningakönnunarinnar var að fá yfirsýn yfir hversu umfangsmikið og útbreitt vandamálið væri og freista þess að finna vísbendingar um orsök þess, en jafnframt var markmiðið að finna bæi sem féllu vel að heildarmyndinni og væru heppilegir til að rannsaka nánar. Þegar könnuninni var lokað þann 28. júní höfðu 311 bændur svarað af u.þ.b. 2000.

Af könnuninni að dæma drapst um helmingi fleira fé í ár en undanfarin tvö ár eða að meðaltali 4%. Mest voru afföllin á Vesturlandi og Suðurlandi. Hjá helmingi svarenda drapst meira en eðlilegt getur talist eða meira en 2%. Hjá 10% svarenda voru afföllin meiri en 8% og hæsta tíðnin var 30%.

Samkvæmt könnuninni virðast kindurnar sem drápust í flestum tilvikum ekki hafa sýnt nein sérstök sjúkdómseinkenni. Meirihluti svarenda sagði að kindurnar hefðu haft eðlilega átlyst og fáir höfðu orðið varir við þau sjúkdómseinkenni sem spurt var um. Aðeins um helmingur svarenda varð var við vanþrif.

Mikilvægt er að hafa í huga að spurningakönnunin var sett saman í miklum flýti þar sem fyrirsjáanlegt var að fénu yrði brátt sleppt á fjall. Hún hefur því ýmsa annmarka. Ekki var spurt um ýmislegt sem gott hefði verið að fá svör við, m.a. um hversu lengi féð gekk úti síðastliðið haust, hvernig holdafarið var þegar féð var tekið á hús, hvenær féð var rúið, hvernig gjafaaðstaða er fyrir hey og fóðurbæti, um magn og tegund áburðar síðastliðið sumar o.s.frv.  Jafnframt var tímasetning könnunarinnar slæm þar sem miklar annir eru hjá bændum á þessum tíma. Stefnt er að því að bæta úr þessu með nýrri könnun í haust, auk þess að fylgjast reglubundið með ákveðnum búum.

Ekki var hlaupið að því að finna bæi sem heppilegir væru til nánari rannsóknar þar sem fé var víða farið á fjall. Það tókst þó á endanum og voru níu bæir heimsóttir af dýralæknum, sem skoðuðu féð, tóku blóðsýni og sendu kindur í krufningu að Keldum, þegar það átti við. Sýnin hafa verið send til Noregs til rannsókna en niðurstöðu úr þeim er ekki að vænta fyrr en í lok þessa mánaðar. Margar þeirra kinda sem krufnar voru drápust úr næringarskorti, þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu en krufningin hefur ekki varpað skýrara ljósi á orsök vandans. Til viðbótar þessum rannsóknum mun Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins annast sýnatöku af heyi sem gefið var í vetur á þeim bæjum sem valdir voru. Jafnframt verða efnagreiningar á heyi víðs vegar að af landinu bornar saman við fyrri ár. 

Þar sem ekki hefur tekist að finna orsök þessarar aukningar í dauða er nauðsynlegt að halda rannsókninni áfram í haust og næsta vetur. Jafnframt er mikilvægt að bændur hafi fljótt samband við dýralækna verði þeir varir við sjúkdóma í fénu eða óeðlileg dauðsföll.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?