Fara í efni

Rannsókn á öndunarfæravandamálum í sauðfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands og Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum vinna nú að verkefni með það að markmiði að kortleggja öndunarfæravandamál í sauðfé um allt land og greina orsakir þeirra. Á Bændatorginu og á Fjárvís er nú hægt að finna stutta könnun sem hefur það að markmiði að safna upplýsingum um hjarðir þar sem öndunarfæraeinkenni hafa verið vandamál. Matvælastofnun hvetur alla sauðfjárbændur til að taka þátt. Því fleiri sem taka þátt, því árangursríkari verður greining þessa mikilvæga heilsufarsvandamáls í sauðfjárræktinni.

Hósti í fé, og þá einkum haustlömbum og ásetningslömbum, er þekkt vandamál á Íslandi. Umfang og orsakir hósta hafa þó ekki verið skráð skipulega og ekki eru til yfirgripsmikil gögn sem nota má til þess að leggja mat á vandann. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á öndunarfæraeinkennum hafa leitt í ljós að þau geti stafað af m.a. kregðubakteríum, lungapestarbakteríum, barkakýlisbólgu og lungnaormum. Telja má líklegt að vandamálið sé alvarlegra á sumum búum en öðrum og jafnvel að ástæður geti verið fleiri en ein. Á þeim búum er mikilvægt að grípa til aðgerða gegn öndunarfærasjúkdómum. Til þess að geta unnið markvisst að slíkum aðgerðum þarf að kortleggja vandann og greina hvaða sýkingarvaldar og áhættuþættir koma fyrir á hverju búi fyrir sig. Stöndum saman vörð um velferð sauðfjár. 


Getum við bætt efni síðunnar?