Fara í efni

Rannsókn á merkingum erfðabreyttra matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Til að afla upplýsinga um erfðabreytt matvæli hér á markaði voru 33 matvælasýni mæld í leit af erfðabreyttum innihaldsefnum á árunum 2012 og 2013 í samstarfsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Valin voru matvæli sem innihéldu hráefni sem gjarnan eru erfðabreytt s.s. maís og soja og var áhersla lögð á sýnatöku af matvælum frá Bandaríkjunum eða öðrum löndum sem rækta mikið af erfðabreyttum plöntum til matvæla- eða fóðurframleiðslu. Jafnframt var eitt sýni tekið sem merkt var sem erfðabreytt og var það notað sem jákvætt viðmið. Tilgangur verkefnisins var að skoða hvort kröfur um merkingar erfðabreyttra matvæla væru uppfylltar. Niðurstaða rannsóknarinnar var að 9% matvælanna (3 sýni af 33) innihéldu erfðabreyttan efnisþátt án þess að það kæmi fram á umbúðum. Varan sem merkt var sem erfðabreytt reyndist réttilega innihalda erfðabreytt innihaldsefni.

Matvælin voru forskoðuð á rannsóknarstofu Matís ohf. Ef jákvætt svar fékkst úr forskoðuninni, sem var vísbending um að varan innihéldi erfðabreyttan efnisþátt, voru sýnin send til rannsóknarstofunnar Eurofins í Þýskalandi til áframhaldandi magngreiningar.

Niðurstöður mælinganna

Samkvæmt forskoðun hjá Matís reyndust 22 sýni af 33 neikvæð, þ.e. þau innihéldu ekki erfðabreyttan efnisþátt, en 11 sýni voru jákvæð og þurfti að skoða frekar. Niðurstöður frá rannsóknarstofunni Eurofins sýndu að 3 sýni innihéldu erfðabreyttan efnisþátt yfir þeim 0,9% mörkum sem sett hafa verið með reglugerð, en 8 sýni gerðu það ekki. Niðurstaðan er því sú að 3 sýni af 33 innihéldu erfðabreyttan efnisþátt sem þarf að merkja á umbúðum hlutaðeigandi vörutegunda. Þessar þrjár matvörur eru ekki lengur á markaði.  

 Niðurstöður greininga á erfðabreyttum þáttum í matvælum

Matvara

Söluaðili/ Framleiðandi

Erfðabreyttur þáttur

Honey Nut Cheerios

Samkaup/General Mills

-

Tortilla Chips

Samkaup/Coop

-

Cornflakes

Samkaup/X-tra

-

Maísbaunir (í dós)

Samkaup/Coop

-

Maískurl

IKEA/Cornexo gmbh. De

-

Poppkorn

Iðnmark/Nebraska popcorn sales

-

Sojaprótein

Samhentir/Vaessen-Schoemaker

-

Maísbaunir (í dós)

ORA

-

Kornflögur

Yggdrasill/Rosengarten

-

Sojamjólk

Yggdrasill/Isola bio

-

Maísstönglar

Kostur/óuppgefið

-

Maísstönglar

Ölgerðin/Norfac

-

Poppmaís

Ölgerðin/Golt metal

-

Néstle Fitness

Nathan & Olsen/Néstle

-

Cocoa Puffs

Nathan & Olsen/General Mills

-

Cheerios

Nathan & Olsen/General Mills

-

Sojakjöt (non-GMO)

Nathan & Olsen/Gott fæði

-

Maísbaunir (í dós)

Nathan & Olsen/Bonduelle

-

Maísbaunir (í dós)

Nathan & Olsen/Green Giant

-

Poppmaís (örbylgjupopp)

Nathan & Olsen/Popp Secret

-

Poppkorn

Heilsa/óuppgefið

-

Sojabaunir

Heilsa/óuppgefið

-

Sojahakk (non-GMO)

Heilsa/óuppgefið

-

Lecithin granules

Heilsa/Lifeplan

-

Cornflakes

Heilsa/Whole Earth

-

Pizza sauce

Krónan/Shop Rite

-

Raisin Bran

Krónan/Shop Rite

-

Makkarónukökur

Krónan/First Price

-

Tortilla chips (multigrain)

Iceland/Food should taste good

+

Dark Chocolate Goji Raspberry

Iceland/Brookside

-

Banana bread mix

Iceland/Chiquita

+

Sojamjólk (organic)

Iceland/Kellogg´s

-

Poptarts

Iceland/Kellogg´s

+

Jákvætt viðmið, matvara merkt erfðabreytt

Cocoa Puffs

Samkaup/General Mills

+


+ erfðabreyttur þáttur er til staðar í matvöru, - erfðabreyttur þáttur er ekki til staðar í matvöru.

Reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla/fóðurs

Þann 1. janúar 2012 tók gildi reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, með síðari breytingum. Markmið reglugerðarinnar er að neytendur fái réttar og greinargóðar upplýsingar um þau erfðabreyttu matvæli sem boðin eru til sölu, auglýst eða kynnt með öðrum hætti. Ábyrgð á merkingu matvæla liggur hjá framleiðendum og dreifingaraðilum, en með dreifingu er m.a. átt við innflutning og sölu. Í 2. mgr. 9. greinar reglugerðarinnar segir: „Ef upp kemur rökstuddur grunur um að matvæli eða fóður, sem ekki eru merkt samkvæmt reglugerð þessari, innihaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum ber matvæla- eða fóðurfyrirtæki að leggja fram gögn því til staðfestingar að hvorki matvælin né fóðrið innhaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum. Matvæla- eða fóðurfyrirtæki skulu þannig leggja fram gögn um feril varanna eða niðurstöður greininga sem sýna fram á að hvorki matvælin né fóðrið innihaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum“. Um opinbert eftirlit með reglum um merkingar erfðabreyttra matvæla segir í 10. gr. reglugerðarinnar að heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna undir yfirumsjón Matvælastofnunar fari með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. 

Um mæliaðferðirnar

Í þessu verkefni var notast við þekkta skimunaraðferð þar sem PCR tækni var notuð til að leita að DNA röðum (efnisþáttum) sem eru til staðar í erfðabreyttum lífverum. DNA raðirnar sem um ræðir eru P35S (Cauliflower mosaic virus P35S promoter), tNOS (nopaline synthase-terminator, úr Agrobacterium tumefaciens) og FMV (Figwort mosaic virus promoter). Magn þessara þekktu DNA raða (P35S, tNOS og FMV) var mælt og borið saman við magn maís og/eða soja í matvælunum. Þar sem þessar mælingar byggjast á greiningum á DNA röðum þá ná þær aðeins til matvæla sem innihalda erfðaefni en ekki til t.d. olíu eða sterkju úr erfðabreyttum lífverum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?