Rafræn umsókn um kaup á greiðslumarki opnuð á AFURÐ
Sauðfjárbændur sem óska eftir að kaupa greiðslumark í sauðfé geta nú sótt um á þar til gerðri umsókn inn í greiðslukerfi landbúnaðarins, AFURÐ. Sótt er um með rafrænum hætti og þurfa umsækjendur að skrá sig inn með rafrænu skilríki í gegnum ÍSLAND.IS.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út breytingarreglugerð nr. 1009/2019 um nýtt innlausnarfyrirkomulag þann 19. nóvember síðastliðinn í samræmi við endurskoðaðan samstarfssamning um starfsskilyrði í sauðfjárrækt milli ríkis og bænda og breytingu á búvörulögum nr. 99/1993.
Matvælastofnun, búnaðarstofa, annast úthlutun greiðslumarksins og skal bjóða til sölu innleyst greiðslumark á núvirtu andvirði beingreiðslna næstu þriggja almanksára.
Skilafrestur á beiðni um innlausn og kaup á greiðslumarki er til miðnættis 15. desember 2019. Greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki er 5. janúar 2020. Með beiðni um innlausn (sölu) á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu. Kaupandi greiðslumarks nýtir greiðslumark frá og með 1. janúar 2020.
Rétt er að taka fram að ekki er sótt um kaup á greiðslumarki á Bændatorginu, heldur í AFURÐ á vefslóðinni afurd.is eða afurd.bondi.is. Í dag var AFURÐ opnað fyrir framleiðendur í landbúnaði, en þar geta bændur komist inn í á:
- Jarðabók búsins. Heildarupplýsingar um búið, tengiliðir, upplýsingar úr lögbýlaskrá (eigendur), stuðningsgreiðslur og greiðslumark.
- Rafræna handbók um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og
- Umsóknir um stuðningsgreiðslur. Aðeins er komin inn umsókn um kaup á greiðslumarki í sauðfé, en á næstu vikum og mánuðum færast umsóknir sem nú eru inn á Bændatorginu yfir á AFURÐ.