Fara í efni

Plasmacytósa staðfest á minkabúi í Skagafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sjúkdómurinn plasmacytósa (Aleutian Disease) hefur verið staðfestur á minkabúi í Skagafirði. Sjúkdómurinn er skilgreindur sem A-sjúkdómur í íslenskum lögum og er því ætíð krafist niðurskurðar á bústofni greinist hann, líkt og gert er þegar riðuveiki greinist í sauðfé. Plasmacytósa kom síðast upp í lok árs 2005 á tveimur bæjum í Skagafirði.

Plasmacytósa er hægfara veirusjúkdómur sem orsakast af ákveðinni gerð af parvoveiru. Þessi gerð veldur einungis sjúkdómi hjá minkum og mörðum en einnig er talið hugsanlegt að hundar, kettir og mýs geti verið smitberar. Veiran skilst út með þvagi, saur og munnvatni smitaðra dýra en berst einnig frá sýktri móður til fósturs. Veiran hefur langan meðgöngutíma í fullorðnum dýrum, eitt ár eða meira, en styttri í hvolpum, eða frá 10 til 20 dögum upp í nokkra mánuði.

Helstu einkenni sjúkdómsins eru lystarleysi, þorsti, blóðleysi og blæðingar úr nefi og munni. Í kjölfarið fylgir slappleiki og dýrin horast. Á lokastigi sjúkdómsins er saurinn blóðblandaður og líkastur tjöru. Dauðaorsök er yfirleitt nýrnabilun en hvolpar drepast oftast vegna bráðrar lugnabólgu. Sjúkdómurinn veldur einnig minnkandi frjósemi, auknum hvolpadauða og slæmum feldgæðum. Sýkt dýr sýna oft ekki skýr sjúkdómseinkenni heldur eru heilbrigðir smitberar. Sjúkdóminn er ekki hægt að meðhöndla með lyfjum, né fyrirbyggja með bólusetningu.Getum við bætt efni síðunnar?