Öryggi matjurta í Reyðarfirði
Matvælastofnun fylgist með niðurstöðum vöktunar á mengun frá álveri Alcoa í Reyðarfirði og hefur mælst aukið flúorinnihald í grasi í sumar, þriðja sumarið í röð. Sumarið 2013 voru tekin sýni af grasi, rabarbara, kartöflum, grænkáli og berjalyngi, auk annarra jurta og má sá niðurstöður þeirra mælinga í skýrslu um umhverfisvöktun 2013.
Þegar kemur að matjurtum sýna niðurstöður eftirlits í Reyðarfirði síðustu ár að þó að styrkur flúors í andrúmslofti og blöðum plantna sé hækkaður þá innihalda ber, fræ og rætur lág gildi. Styrkur flúors í rabarbarastilkum, kartöflum og berjum var í öllum tilfellum mun lægri en styrkurinn í laufblöðum sömu plantna. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar athuganir. Þ.a.l. er ekkert því til fyrirstöðu að nýta matjurtir á svæðinu.
Matvælastofnun telur þó ástæðu til að benda fólki á að skola vel með vatni matjurtir eins og salat og ber fyrir neyslu, einkum ef veðurfar hefur verið þurrt. Með því er hægt að fjarlægja mikið af því flúori sem situr á yfirborði þeirra og minnka heildarinntöku neytenda á flúori.
Varðandi afurðir dýra sem alin eru á svæðinu stafar neytendum engin hætta af neyslu þeirra.