Fara í efni

Ónóg upplýsingagjöf um ofnæmisvalda í óinnpökkuðum mat

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sýnir að upplýsingagjöf verslana og veitingahúsa um ofnæmisvalda í óinnpökkuðum matvælum er víða ófullnægjandi. Af 159 verslunum og veitingahúsum reyndust eingöngu 57% uppfylla upplýsingaskyldu. Skortur á upplýsingum um þekkta ofnæmis- og óþolsvalda getur valdið fólki með fæðuofnæmi eða -óþol heilsutjóni.

Árlega standa Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna fyrir sameiginlegum eftirlitsverkefnum. Verkefnin standa yfir í afmarkaðan tíma og er þá lögð áhersla á ákveðið, afmarkað málefni. Á árinu 2017 var sjónum beint að upplýsingagjöf til neytenda um ofnæmis- og óþolsvalda í óforpökkuðum matvælum (mat sem ekki er pakkað í umbúðir fyrir sölu eða er pakkað á sölustað).

Alls voru 159 verslanir sem selja matvæli og veitingahús heimsótt víðsvegar um landið og ástand upplýsingagjafar athugað. Niðurstöður verkefnisins sýna að talsvert vantar uppá að upplýsingaskylda sé að öllu leyti uppfyllt. Aðeins 57% fyrirtækja uppfylltu alla þætti upplýsingaskyldunnar. 

Frávikin voru misalvarleg. Í flestum tilvikum var vandamálið að ekki voru sýnilegar upplýsingar (t.d. skilti eða á matseðli) sem gáfu til kynna að starfsfólk veitti munnlegar upplýsingar um ofnæmisvalda. Alvarlegast var þegar gefin voru þau svör að ekki væru ofnæmisvaldar í tilteknum matvælum en ekki var hægt að staðfesta það með neinum hætti (uppskrift eða innihaldslisti ekki til staðar).

Það eina sem einstaklingur með fæðuofnæmi- eða óþol getur gert til að hindra ofnæmisviðbrögð, er að forðast ofnæmisvakann alveg með því að sniðganga matvæli sem innihalda hann. Það er því lykilatriði að neytendur geti á auðveldan hátt nálgast upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvalda og að þær upplýsingar séu áreiðanlegar. Þess vegna eru sérstakar reglur sem skylda matvælafyrirtæki til að upplýsa um algengustu ofnæmis- og óþolsvalda sem eru í matvælum, óháð því hvort maturinn er innpakkaður eða ekki, hvort sem er í verslunum eða á veitingahúsum. 

Ekki gilda sömu reglur um upplýsingagjöf fyrir forpökkuð matvæli og óforpökkuð matvæli. Fyrir óforpökkuð matvæli er leyfilegt að gefa upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvalda á hvaða hátt sem er þ.m.t. munnlega ef gefið er til kynna á sýnilegan hátt (með merkimiða, matseðli eða á skilti þar sem neytandinn velur matvælin), að starfsfólk veiti nánari upplýsingar um ofnæmisvalda.

Þeim frávikum sem komu í ljós í verkefninu var/er fylgt eftir með opinberu eftirliti. Eftirlitsaðilar sem sinna matvælaeftirliti í landinu (heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Matvælastofnun) munu áfram beina sjónum að upplýsingagjöf um ofnæmis- og óþolsvalda.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?