Óheimilt er að vængstýfa skrautfugla
Matvælastofnun vekur athygli á að skv. reglum um velferð gæludýra er óheimilt að vængstýfa skrautfugla nema í sérstökum undantekningartilvikum. Með vængstýfingu er átt við klippingu á vængfjöðrum þannig að fuglinn verði ófleygur.
Í 30. gr. reglugerðar um velferð gæludýra segir:
Búrfuglum skal almennt gefinn kostur á að fljúga. Aðeins má vængstýfa þá fugla sem ekki er hægt að halda öðruvísi og þá aðeins af aðila sem hefur reynslu og þekkingu á slíku, að mati Matvælastofnunar. Aðra fugla má þó vængstýfa tímabundið ef þörf er á í upphafi þjálfunar og tamningar. Vernda skal vængstýfða fugla fyrir óvinveittum dýrum.
Þetta ákvæði byggir á markmiði laga um velferð dýra um að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Því er ætlað að stöðva þróun í átt að almennri vængstýfingu skrautfugla sem haldnir eru sem gæludýr. Ljóst er að enn eru stundaðar vængstýfingar sem brjóta í bága við þessar reglur.
Rétt er að minna á að Matvælastofnun hefur heimild til beitingar stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um velferð dýra.