Fara í efni

Nýr afgreiðslumáti vegna innflutnings á vörum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Frá og með 1. mars 2012 mun Matvælastofnun eingöngu gefa út leyfi á einn leyfislykil sem bera mun kennimarkið MST. Á þetta við hvort sem um er að ræða innflutning á afurðum frá ríkjum innan eða utan EES svæðisins.

Eldri leyfislyklar

Gömlu leyfislyklarnir 25 munu þó gilda áfram fyrir leiðréttingar og breytingar, sem gerðar eru á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu (afgreiðsla tvö) hafi vörusending verið tollafgreidd eða bráðabirgðatollafgreidd fyrir 1. mars 2012. Sama gildir um hraðsendingar sem afhentar voru með leyfi tollgæslu fyrir 1. mars þó aðflutningsskýrsla vegna fullnaðartollafgreiðslu sé lögð inn hjá Tollstjóra eftir þann tíma.

Almennar upplýsingar

Tilgangur breytinganna er að gera eftirlit með innflutningi skilvirkara og einfalda ferla vegna leyfisveitinga fyrir viðskiptavini. Með breyttri stjórnsýsluframkvæmd mun fjöldi leyfisskyldra tollskrárnúmera haldast óbreyttur. Hins vegar mun framkvæmd leyfisveitingar taka breytingum. Þar má helst nefna að innflytjendur allra sendinga, sem heyra undir eftirlitsskyldu Matvælastofnunar, verða að sækja um leyfisnúmer vegna innflutnings til stofnunarinnar. Að því gefnu að innflutningur verði heimilaður mun Matvælastofnun í framhaldinu úthluta innflytjanda einkvæmu leyfisnúmeri sem færist í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Með breytingunni verður ekki heimilt að nota skírskotunina „UNDANÞE" þegar vísað er til nýja leyfislykilsins MST eins og hægt var með eldri lykla.

Upplýsingar vegna hugbúnaðar til tollskýrslugerðar

Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði vegna innflutnings vara, sem taka gildi 1. mars 2012, eru aðgengilegir á vef Tollstjóra.

Í CUSDOR skeyti (EDI skeyti), beiðni send innflytjanda eða tollmiðlara um að senda tiltekin tollskjöl aðflutningsskýrslu til Tollstjóra, er tekinn upp nýr skjalakódi: MST Leyfi Matvælastofnunar.

Í tollskýrslugerðarhugbúnaði þarf að stofna MST leyfislykilinn í skrá/töflu, sem notuð er vegna reits 14 í aðflutningsskýrslu og einnig þarf að stofna MST lykilinn sem skjalakóda er komið getur í CUSDOR skeyti; bara MST leyfislykillinn sjálfur er sendur í skeytinu, en túlka þarf leyfislykilinn í textann: Leyfi Matvælastofnunar.

Nánari upplýsingar

Um tollamál og tollafgreiðslu: Upplýsingaveita tollasviðs Tollstjóra, sími 560 0315

Um tæknilega framkvæmd: TTU-deild, tölvukerfi tollafgreiðslu og upplýsingavinnsla, hjá Tollstjóra: ttu[hja]tollur.is eða TTU þjónustuvakt, sími: 560 0505

Um innflutning á vörum sem Matvælastofnun hefur eftirlit með: Matvælastofnun, Inn- og útflutningsskrifstofa, sími: 530 4800

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?