Fara í efni

Nýjar reglur um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ný reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli tók gildi 17. október sl. Markmið reglugerðarinnar er að auka sveigjanleika í lítilli og hefðbundinni matvælaframleiðslu til að auðvelda framleiðendunum að uppfylla kröfur matvælalöggjafarinnar.

Reglugerðin felur í sér talsverðar nýjungar fyrir lítil matvælafyrirtæki þar sem vinnsla matvæla er hliðarbúgrein með annarri starfsemi. Hún veitir afslátt af ákveðnum kröfum í hollustuháttareglugerðum og skapar aukið svigrúm til framleiðslu séríslenskra hefðbundinna matvæla, s.s. reykingar á kjöti í litlum reykhúsum úr náttúrulegum efnum (torfkofum), þurrkunar á fiski í hjöllum og trönum og hefðbundinnar verkunar á hákarli. Einnig eru veittar undanþágur frá ákveðnum kröfum í sláturhúsum og fiskmörkuðum.

Umræddur sveigjanleiki byggist á heimildum reglugerða Evrópusambandsins um hollustuhætti sem varða matvæli og skipulag opinbers eftirlit með dýraafurðum (reglugerð nr. 103/2010, 104/2010 og 105/2010). Þær heimila allar ákveðinn sveigjanleika eða aðlögun að ýtrustu kröfum reglugerðanna án þess þó að koma í veg fyrir að markmiðum þeirra verði náð.

Nefna má eftirfarandi atriði í reglugerðinni:

  • Ekki er skylt að kljúfa fyrir heilbrigðisskoðun skrokka af ákveðnum dýrum í sláturhúsum
  • Sérákvæði um geymslur fiskmarkaða
  • Ákveðinn sveigjanleiki fyrir litlar mjólkurvinnslur, litlar kjöt- og fiskvinnslur, litlar eggjapökkunarstöðvar og litlar matvælavinnslur
  • Sérstök aðlögun að kröfum fyrir lítil sláturhús
  • Aðlögun að kröfum fyrir lítil reykhús
  • Sérákvæði um hefðbundna þurrkun á fiski
  • Sérákvæði um verkun á hákarli

Með innleiðingunni er farið að fordæmi annarra Evrópuríkja sem hafa notfært sér þessar heimildir fyrir hefðbundna matvælaframleiðslu í sínum löndum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?