Fara í efni

Ný reglugerð um endurunnið plast ætlað fyrir matvæli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


 
Evrópusambandið (ESB) gaf nýlega út reglugerð um efni og hluti úr endurunnu plasti sem ætlað er í snertingu við matvæli. Reglugerðinni er ætlað að tryggja að umbúðir matvæla úr endurunnu plasti séu öruggar fyrir neytendur og mun hún verða tekin upp í íslenskri löggjöf.

Með efni og hlutum er átt við umbúðaefni, diska, hnífapör, framleiðsluvélar, ílát o.s.frv. Hugtakið á einnig við um efni og hluti sem koma í snertingu við neysluvatn en undanskilinn er fastur vatnsveitu-búnaður fyrir almenning eða til einkanota.

Hingað til hefur aðeins stofnreglugerð ESB nr. 1935/2004 náð utan um þennan flokk efna og hluta en það hefur orðið til þess að mismunandi reglur hafa verið settar í Evrópu um endurunnið plast, sum lönd hafa bannað endurunnið plast í snertingu við matvæli á meðan önnur lönd hafa leyft ákveðnar aðferðir við framleiðslu á slíku plasti. Í einhverjum löndum hafa verið gefnar út viðmiðunarreglur á meðan enn aðrir hafa engar reglur um endurunnið plast í umbúðum.

Ólíkar reglur milli landa skapa hömlur fyrir framleiðendur á markaðnum og gera fyrirtækjum erfitt fyrir að uppfylla settar reglur. Markmið þessarar nýju reglugerðar er því m.a. að koma á einum sameiginlegum markaði í Evrópu þar sem sömu skilyrði eru sett um framleiðslu í öllum löndum og öryggi efna og hluta úr endurunnu plasti er tryggt.

Með reglugerðinni er leitast eftir því að skapa eitt skýrt og viðurkennt kerfi við framleiðslu. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) er ábyrg fyrir áhættumati á aðferðum sem notaðar eru við framleiðslu. Framkvæmdastjórn ESB mun leggja fram tillögur að framleiðsluferlum sem taldir eru öruggir. Aðildarríkin hafa svo eftirlit með fyrirtækjum sem framleiða endurunnið plast fyrir matvæli og skulu samþykkja framleiðsluferla sem notaðir eru.

Fyrirtæki þarf að sýna fram á fullnægjandi stýrikerfi þar sem tryggt er að plastið sem verið er að endurvinna sé eingöngu unnið úr plastefnum sem eru í samræmi við reglugerð um plast sem ætlað er að snerta matvæli.

Framleiðendur þurfa að sýna fram á að framleiðslan taki mið af því að lágmarka mengun í plastinu þannig að heilsu manna stafi ekki hætta af notkun þess. Ennfremur skulu þeir hafa gæðakerfi. Aðeins framleiðsla sem sýnt hefur verið fram á að sé örugg verður heimiluð.

Merking á endurunnu plasti sem ætlað er að snerta matvæli er valfrjáls. Ef framleiðandi vill hins vegar merkja vöruna með upplýsingum um notkun skal hann fara eftir ISO 14021:1999 eða sambærilegum staðli.

Ítarefni


  


Getum við bætt efni síðunnar?