Fara í efni

Ný löggjöf um lífræna framleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur innleitt löggjöf Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu í íslenskt regluverk. Með innleiðingunni eru gerðar ítarlegri kröfur til lífrænnar framleiðslu í gegnum allt framleiðsluferlið, allt frá öflun aðfanga til markaðssetningar lokaafurða. Lífræn vottun og eftirlit verður áfram hjá sjálfstætt starfandi vottunarstofum sem starfa undir eftirliti Einkaleyfastofunnar. Fram til þessa hefur vottunarstofan Tún verið eini aðilinn sem hefur faggildingu til að votta lífræna framleiðslu á Íslandi.

Árin 2007 og 2008 tók gildi ný löggjöf um lífræna framleiðslu innan Evrópusambandsins (ESB). Markmið hennar var að leiða til sjálfbærrar ræktunar, fjölbreytileika í úrvali hágæðavara, umhverfisverndar, líffræðilegrar fjölbreytni, dýravelferðar, trúverðugleika og neytendaverndar. Á undanförnum árum hefur löggjöfin tekið miklum breytingum til að m.a. aðlagast breyttum markaðsaðstæðum og aukinni eftirspurn.

Löggjöfin sem nú er innleidd hér, samanstendur af 41 EB gerð sem innleiddar eru með tveimur innleiðingarreglugerðum, annars vegar um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara, og hins vegar um fyrirkomulag á innflutningi lífrænna afurða frá löndum utan Evrópu. Nálgast má EB gerðir á upplýsingasíðu Matvælastofnun um lög og reglur. Með innleiðingu eru kröfur til lífrænnar framleiðslu hertar, þær eru mun ítarlegri og ná yfir allt ferlið, frá öflun aðfanga til ræktunar, vinnslu, skjalfestingar á ferli hráefna í gegnum vinnslu og innflutnings vottaðra vara frá þriðju ríkjum. Þannig er reynt að girða fyrir svindl hvað varðar merkingu lífrænna vara.

Fyrirkomulag vottunar og eftirlits með lífrænni framleiðslu er að mestu óbreytt:

  1. Framleiðandi lífrænna afurða skal tilkynna um starfsemi sína til faggiltrar vottunarstofu fyrir lífræna framleiðslu
  2. Atvinnurekendur skulu miðla þeim viðbótarupplýsingum sem vottunarstofa telur nauðsynlegar til að halda uppi virku eftirliti með starfsemi þeirra.
  3. Vottunarstofa vottar lífræna framleiðslu og annast eftirlit með atvinnurekendum sem markaðssetja vörur sínar með lífrænni vottun.
  4. Vottunarstofa skal tryggja að endurnýjuð skrá með nöfnum og heimilisföngum atvinnurekenda sem eftirlitskerfið gildir um sé aðgengilegt fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta.
  5. Hver sá atvinnurekandi sem fer að ákvæðum löggjafarinnar og greiðir framlag sitt vegna eftirlitskostnaðar vottunarstofu skal hafa aðgang að eftirlitskerfi hennar.
  6. Einkaleyfastofan faggildir vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu og annast eftirlit með þeim.
  7. Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi lífrænna afurða frá þriðju löndum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?