Fara í efni

Notkun fjölfosfata við framleiðslu á saltfiski

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu vegna notkunar fjölfosfata við framleiðslu á saltfiski vill Matvælastofnun (MAST) koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Forsaga málsins

Mál þetta á sér nokkra forsögu. Fiskistofa birti þegar á árinu 2007 upplýsingar til saltfiskframleiðenda á heimasíðu sinni um að notkun fosfata við vinnslu á saltfiski væri ekki heimil samkvæmt íslenskum aukefnareglum, sem byggðar eru á ESB-reglum um sama efni. Þá hafði borið á notkun fjölfosfata við vinnslu á saltfiski og hafði hún færst í vöxt, bæði hjá íslenskum framleiðendum og hjá samkeppnisaðilum í nágrannaríkjum okkar. Ástæða þess að íslenskir framleiðendur hófu notkun á efnunum var sú að samkeppnisaðilar á Spánarmarkaði fengu hærra verð fyrir afurðir vegna þess að fiskurinn var m.a. hvítari (vegna notkunar fosfata) og voru kaupendur á Spáni farnir að gera kröfu um að afurðir uppfylltu þessi skilyrði.

Um aukefni


   
Um fjölfosföt sem aukefni gilda þær reglur að nota má þau í frystar fiskafurðir en ekki ferskar eða saltaðar. Ef efnin eru notuð ber undantekningalaust að merkja vöruna. Þegar Matvælastofnun hóf störf fluttist ábyrgð á þessu verkefni frá Fiskistofu til MAST. Í maí 2009 sendi stofnunin erindi á alla framleiðendur og vakti athygli á aukefnareglum og kröfum um merkingu aukefna og var þetta gert að höfðu samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Var jafnframt upplýst að frá og með 1. september 2009 yrði gengið eftir því við eftirlit að reglum um notkun aukefna væri hlítt.

MAST fer með opinbert eftirlit, en rétt er að vekja einnig athygli á því að samkvæmt íslenskri matvælalöggjöf er það stjórnandi matvælafyrirtækis sem ber ábyrgð á að kröfum laga og stjórnvaldsfyrirmæla um starfsemina sé fylgt á hverjum tíma og ber hann ábyrgð á öllum stigum framleiðslu og dreifingar og skal sannprófa að slíkum kröfum sé framfylgt.

Tæknileg hjálparefni

Viðbrögð við erindi MAST af hálfu hagsmunaaðila, með stuðningi frá Matís, voru þau að fjölfosföt væru tæknileg hjálparefni en ekki aukefni þar sem magn fjölfosfata í lokaafurð að lokinni útvötnun væri svipað og ef um ómeðhöndlaðan fisk væri að ræða. Tæknileg hjálparefni eru ekki háð sömu reglum um notkun og aukefni og þau eru ekki merkingarskyld þar sem þeim er ekki ætlað að hafa tæknileg áhrif í tilbúinni vöru. Þau eru skilgreind á eftirfarandi hátt í reglugerð um aukefni:

 
Tæknileg hjálparefni eru efni sem notuð eru til að ná ákveðnum tæknilegum tilgangi í meðhöndlun eða vinnslu matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa tæknileg áhrif í fullunninni vöru.   

MAST fór aftur yfir málið m.t.t. þess rökstuðnings sem lagður var fram um að líta bæri á fjölfosföt sem tæknileg hjálparefni. Stofnunin komst að sömu niðurstöðu og áður um að fjölfosföt væru aukefni. Eiginleikar efnanna styðja álit MAST um að ekki sé um tæknilegt hjálparefni að ræða þar sem áferð fisksins breytist og hann verður hvítari. Efnin virka jafnframt sem þráavörn (afoxandi) og eru vatnsbindandi. Formleg mótmæli við afstöðu MAST bárust stofnuninni frá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF) í lok ágúst 2009 og samtökin leituðu einnig til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna fyrirhugaðra aðgerða af hálfu MAST. Stofnunin lagði hins vegar áherslu á að ef framleiðendur óskuðu eftir að nota efnin áfram þá yrði sótt um heimild til notkunar þeirra til Framkvæmdastjórnar ESB þar sem EES-reglur og þar með íslenskar reglur um aukefni eru byggðar á ESB-löggjöf.

Umsókn til ESB

Á meðan á þessari umræðu stóð var lögð fram umsókn til Framkvæmdastjórnar ESB um að notkunarmöguleikar fjölfosfata í matvælum yrðu rýmkaðir, þ.m.t. í saltfiski. Umsækjandinn er þýskur framleiðandi algengustu fjölfosfatblöndunnar hér á markaði. Umsókn þessi var lögð fram á miðju árinu 2009 og lítur MAST svo á að þar með hafi verið staðfest að þetta væri rétta leiðin til að finna farsæla lausn á þessu ágreiningsmáli. Sérfræðinefnd ESB um aukefni hefur málið því nú til umfjöllunar og hefur m.a. krafið framleiðanda efnanna um frekari upplýsingar um tæknilega þörf fyrir notkun þeirra við framleiðslu á saltfiski.

Niðurstaða sérfræðinefndarinnar mun skýra hvort líta beri á fjölfosföt sem tæknileg hjálparefni eða aukefni, en hagsmunaaðilar bæði í Noregi og á Íslandi hafa talið að notkun væri heimil sem tæknilegt hjálparefni, á meðan stjórnvöld í báðum ríkjum hafa fært rök fyrir því að um notkun efnanna skuli farið samkvæmt aukefnareglum.

Staðan í öðrum ríkjum

Notkun fjölfosfata við framleiðslu á saltfiski er ekki bara bundin við Ísland. Þær þjóðir sem eru í samkeppni við íslenskan saltfisk á Spánarmarkaði nota fjölfosföt. Kaupendur þar vilja nær eingöngu fjölfosfat meðhöndlaðan saltfisk. Aðgerðir sem þessar þjóðir fara í þurfa því að vera samhæfðar. MAST hefur haft frumkvæði að því að leita upplýsinga um afstöðu þessara ríkja til málsins og einnig var haldinn fundur hér á landi í byrjun þessa árs með fulltrúum matvælastofnana í Noregi, Færeyjum og Danmörku. Í Noregi hafði matvælastofnunin tekið svipaða afstöðu og MAST, í Færeyjum hafði ekki verið gripið til aðgerða og í Danmörku hafði verið ákveðið að bíða eftir niðurstöðu úr umfjöllun sérfræðinefndar ESB um aukefni.

Í Þýskalandi hafði notkun fjölfosfata einnig komið til umfjöllunar hjá opinberu matvælaeftirliti vegna framleiðslufyrirtækis sem Íslendingar komu að þar í landi. Þar var einnig ágreiningur um hvort litið væri á notkun efnanna sem tæknileg hjálparefni eða aukefni. Niðurstaðan varð sú að fyrirtækinu væri heimilt að framleiða saltfisk með tilteknum skilyrðum þar til dómstólar hefðu skorið úr um tilgang og tæknileg áhrif notkunar fjölfosfata í framleiðslunni. Markaðssetning gæti hins vegar eingöngu átt sér stað utan Þýskalands þar til dómur væri fallinn. Að lokum má geta þess að í ríkjum eins og Spáni þar sem varan er markaðssett hefur ekki verið gripið til aðgerða.

Niðurstaða málsins 

Í ljósi þess að ágreiningur hefur verið um tilgang og tæknileg áhrif vegna notkunar fjölfosfata og þess að EES-ríki hafa ekki tekið endanlega afstöðu eða gripið til víðtækra aðgerða ákvað MAST að fresta áður boðuðum aðgerðum. Var það gert til loka þessa árs eða þar til sérfræðinefnd ESB hefði lokið umfjöllun um málið. Verði þessu ferli lokið á árinu þá getur Framkvæmdastjórn ESB gert tillögu um hvort notkun fjölfosfata verði heimil við framleiðslu á saltfiski eða ekki. MAST verður síðan að byggja endanlega niðurstöðu sína í málinu á sömu forsendum í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. EES-samningnum. Það sama gildir um alla saltfiskframleiðendur.


Getum við bætt efni síðunnar?