Fara í efni

Niðurstaða eftirlits ESA með heilbrigði lagareldisdýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ísland býr að því að hafa áralangt viðhaft gott opinbert eftirlit með heilbrigði eldisfisks og annarra lagareldisdýra. Það hefur skilað sér í jákvæðu heilbrigðisástandi og er Ísland af þeim sökum stórvirkur aðili í sölu á lifandi fiski og hrognum bæði til Evrópska efnahagssvæðisins og landa utan EES.

Niðurstöður úttektar ESA (eftirlitsstofnunar EFTA) á eftirliti með heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, og forvörnum og vörnum gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum, hafa nýlega borist eftirlitsaðilum hérlendis. 

ESA kom í eftirlitsheimsókn til Íslands 11.-20. mars síðastliðinn. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með heilbrigði lagareldisdýra á Íslandi sé í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Til lagareldisdýra teljast eldisfiskur, skeldýr og krabbadýr í eldi. Fjórir eftirlitsmenn komu til Íslands, þrír frá ESA og sérfræðingur frá tilvísunarrannsóknastofu ESB (EURL) til ráðgjafar. Dýralæknir fisksjúkdóma og aðrir eftirlitsmenn MAST fylgdu hópnum í heimsóknir til fiskeldisfyrirtækja og ræktunarstöðva skelfisks á sjó og landi, flutningsaðila, fiskeldissláturhúss, móttöku eldisúrgangs og tilvísunarrannsóknastofa í sjúkdómum lagareldisdýra og heilnæmi afurða.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu og þar koma fram tilmæli um lítilsháttar úrbætur, en í skýrslunni segir jafnframt að opinbert eftirlit dýralækna fisksjúkdóma sé reglubundið, áhættumiðað og vel skjalfest. Meðal athugasemda ESA kemur fram að þrátt fyrir að staðan sé góð m.t.t. heilbrigðiseftirlits með eldisfiski sé staðan ekki eins góð hvað skeldýr varðar. Gerðar er athugasemdir m.a. við heilnæmiseftirlit og framkvæmd sýnatöku úr umhverfi og afurðum skelfisks.

Athugasemdir voru gerðar við að engin sláturhús væru útbúin til að taka við sýktum fiski. Þess má geta að ákvæði um slíkar kröfur voru sett með nýrri reglugerð nr. 300/2018 um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðvum og skulu sláturhús á tilteknum svæðum uppfylla þessi skilyrði frá 30. september 2019. Þá komu smávægilegar athugasemdir fram um að aðferðafræði við afgreiðslu erinda um innflutning lifandi eldisdýra væri ekki alveg í samsvari við EES löggjöfina. Fundið var að því að tekið væri tillit til smitsjúkdóma sem ekki væru tilkynningaskyldir skv. sömu löggjöf án þess að formleg samþykki ESA lægi fyrir.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis, ásamt athugasemdum og leiðréttingum. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.


Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?