Neysla ungmenna á orkudrykkjum gefur tilefni til aðgerða
Áhættumatsnefnd hefur rannsakað að beiðni Matvælastofnunar hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í 8.-10. bekk. Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í fyrri rannsóknum og gefi tilefni til aðgerða til að lágmarka neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín og fyrirbyggja neikvæð áhrif á heilsu þeirra.
Helstu niðurstöður eru:
- Neysla íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Varfærið mat sýnir að miðað við norsk ungmenni er neysla íslenskra ungmenna allt að því tvisvar sinnum meiri hjá meðalneytendum.
- Niðurstöðurnar sýna að um 30% íslenskra ungmenna í 8. bekk neyta orkudrykkja sem innihalda koffín og að neyslan eykst með aldri og er um það bil 50% meðal ungmenna í 10. bekk.
- Varfærið mat sýnir að hjá a.m.k. 30% ungmenna í 8.-10. bekk sem neyta orkudrykkja er koffínneysla yfir þeim mörkum sem talið er að valdi neikvæðum áhrifum á svefn (neysla koffíns yfir 1,4 mg/kg líkamsþyngdar á dag). Til samanburðar innbyrða aðeins 5% ungmenna, sem ekki drekka orkudrykki, koffín yfir þessum mörkum.
- Það er sterkt neikvætt samband milli neyslu íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum og svefns. Þau eiga erfiðara með að sofna og hlutfall þeirra sem segist sofa lítið (6 tíma eða minna á sólarhring) er mjög hátt, eða tæplega 16%.
- Varfærið mat sýnir að a.m.k. 12% ungmenna í 8.-10. bekk sem neyta orkudrykkja, neyta koffínmagns yfir þeim öryggismörkum sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) ráðleggur að sé örugg fyrir fullorðna einstaklinga, eða 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag. Til samanburðar innbyrða 1-2% ungmenna, sem ekki neyta orkudrykkja, koffín yfir þessum mörkum.
- Þau ungmenni sem innbyrða mest koffín, innbyrða tvöfalt til fjórfalt það magn sem EFSA leggur til sem öryggismörk fyrir koffíninntöku fullorðinna, eða 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag.
- Langtíma neysla á miklu magni (yfir 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag) af koffíni getur valdið miklu álagi á hjarta- og æðakerfið.
- Áhættumatið sýnir einnig að ungmenni í 8.-10. bekk sækjast eftir að kaupa sterka orkudrykki sem ekki er leyfilegt að selja einstaklingum yngri en 18 ára.
- Framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla ungmenna í 8.-10. bekk sé meiri en æskilegt er, hafi neikvæð áhrif á svefn og andlega líðan þeirra og sé yfir því magni sem valdið getur hækkun á blóðþrýstingi og þar með auknu álagi á hjarta- og æðakerfið.
Áhættumatsnefnd (ÁN) atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru var stofnuð 2019.
Í ljósi aukins framboðs og neyslu íslenskra ungmenna á orkudrykkjum óskaði Matvælastofnun eftir því að ÁN gerði magnbundið mat á því hversu mikið af koffíni er líklegt að ungt fólk innbyrði í gegnum drykkjarvörur og hvort neyslan hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmennanna.
Matís var fengið til að taka að sér verkefnastjórn fyrir áhættumatið og vinna með ÁN.
Rannsóknir & greining framkvæmdi könnunina sem m.a. nær yfir neyslu ungmenna í 8.-10. bekk eins og þau hafa gert undanfarin ár, en bætt var við sérstökum spurningum í könnunina til að meta nánar magn koffíns sem ungmennin í 8.-10. bekk neyta. Þessi neyslukönnun er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem hægt er að magngreina koffínneyslu ungmenna á þessum aldri og er matið því einnig mikilvægt alþjóðlega til að meta áhættu af koffínneyslu barna og ungmenna.
Tölfræðiúrvinnsla gagnanna var í höndum ÁN og voru niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegt áhættumat sem hefur verið framkvæmt í Noregi.
Áhættumatsnefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Matvælastofnun
Frekari upplýsingar vegna áhættumatsins: Helga Gunnlaugsdóttir, Matís
Tengiliður Matvælastofnunar: Dóra S. Gunnarsdóttir, sviðsstjóri
Nefndarmenn ÁN:
- Þórhallur Ingi Halldórsson, Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, sá um tölfræðiútreikninga
- Charlotta Oddsdóttir, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
- Jóhannes Sveinbjörnsson, Landbúnaðarháskóla Íslands
- Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, Embætti landlæknis
- Rafn Benediktsson, Heilbrigðisvísindasvið HÍ