Fara í efni

Minnispunktar við hrossaútflutning

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


Hross skulu vera ójárnuð en snyrta þarf hófa
  

Á haustdögum gengur sá tími í garð sem að mestur hrossaútflutningur er frá landinu. Um útflutning á hrossum gilda lög númer 55/2002 og reglugerð númer 449/2002.

Ekki er þó ætlunin í þessum pistli að rekja nákvæmlega lagalegu hliðina á útflutningnum, heldur koma með stuttar leiðbeiningar til hesteigenda varðandi undirbúning fyrir útflutning hrossa.

 
Vert er að hafa eftirfarandi atriði í huga við útflutning á íslenskum hrossum:


 1. Skráning hrossa í Worldfeng
  Nauðsynlegt er að athuga hvort hross sé rétt skráð í Worldfeng áður en það er sent af stað til útflutningsskoðunar. Skoða þarf skráningar á lit (sokkar, stjörnur o.s.frv.) og merkingu (örmerki og frostmerki). Þær upplýsingar sem prentaðar eru í hestavegabréf fyrir viðkomandi hross eru byggðar á upplýsingum úr Worldfeng. Séu prentaðar upplýsingar í hestavegabréfinu ekki réttar verður að gefa út nýjan passa með réttum upplýsingum sem kostar tíma og peninga.
 2. Heilbrigði og holdafar hrossa
  Hross skulu vera heilbrigð og í ásættanlegum holdum. Í 8. gr. reglugerðar 449/2002 segir „Óheimilt er að flytja úr landi hross sem eru mögur og illa útlítandi, illa hirt, meidd, sýnilega hölt, eða með öðrum sýnilegum lýtum eða göllum.“ Séu hross horuð eða heilbrigði þeirra ábótavant að öðru leiti, er útflutningi þeirra hafnað.
 3. Hross eiga að vera hrein
  Hross skulu vera vel hirt sbr. tilvitnun í 8. gr. reglugerðar. 449/2002 hér að ofan. Einnig er nauðsynlegt hross séu hrein til að hægt sé að staðfesta og skrá lit og einkenni þeirra í passa. Folöld og trippi sem tekin hafa verið á hús nokkru fyrir útflutning hafa sérstaklega verið vandamál í þessu tilliti. Séu hross óhrein er útflutningi þeirra hafnað.
 4. Hross skulu vera ójárnuð
  Ekki er heimilt að flytja hross út á járnum, sbr. 12. gr. reglugerðar 449/2002, vegna slysahættu bæði fyrir hrossið sjálft og önnur hross sem flutt eru með því í sömu stíu. Gerð er krafa um að dregið sé undan hrossum áður en leyfi er veitt til útflutnings.
 5. Hófar skulu vera snyrtilegir
  Snyrta skal hófa þannig að þeir séu ekki ofvaxnir, brúnir þeirra skarpar, né þeir séu sprungir. Meiri hætta er á að hófar sem eru úr sér vaxnir eða sprungnir, brotni í flutningum. Illa snyrtir hófar geta einnig skapað slysahættur fyrir önnur hross og hefur það því miður of oft gerst. Hross verða oft stressuð í flugi og eru þá gjörn á að krafsa mikið, auk þess sem barningur við önnur hross getur verið nokkur. Þetta eykur enn líkurnar á að hófar brotni og því er nauðsynlegt að þeir séu vel hirtir.
  Farið er fram á að vaxnir eða brotnir hófar hrossa séu snyrtir áður en leyfi er veitt til útflutnings.
 6. Mjög æskilegt er að hross séu bandvön
  Nauðsynlegt er að eitthvað hafi verið átt við hross (einnig stálpuð trippi) áður en þau eru sett í allan þann feril sem fylgir flutningi þeirra til útlanda. Við útflutning eru hross yfirleitt sett a.m.k. tvisvar á flutningabíl, tekin um borð í flugvél og þurfa að fara í þrjár dýralæknaskoðanir, þar af eina erlendis. Hrossin eru í ókunnugum aðstæðum, á ókunnugum stað, með ókunnugu fólki og með ókunnugum hrossum sem allt eykur stressið hjá þeim. Hross sem eru ekki vön umgengni geta orðið hættuleg þeim sem þurfa að eiga við þau, sérstaklega á þann hátt að ekki tekst að hafa stjórn á þeim. Þetta er séstaklega vandamál á flugvöllum þar sem starfsfólk er óvant að umgangast hross og aðstæður eru ekki til staðar til þess að eiga við hross sem eru hrædd og stygg. Því miður hafa orðið slys á fólki vegna þessa. Komið hefur fyrir að útflutningi hrossa hafi verið hafnað þar sem ekki hefur verið hægt að komast nálægt hrossinu við skoðun. Það er því mjög æskilegt að stálpuð trippi og hross séu bandvön og aðgengileg þegar þau eru send til útflutnings.
 7. Fylfullar hryssur skulu ekki gengnar með sjö mánuði eða lengur
  Í 3. grein reglugerðar 449/2002 segir „óheimilt er að að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.“ Þessum reglugerðarbókstaf er mjög erfitt að fylgja nákvæmlega eftir, en þumalfingursreglan hefur verið sú að fylfullar hryssur fá ekki leyfi til útflutnings eftir 31. mars.


Það ætti að vera metnaður íslenskra hrossaræktenda að senda frá sér heilbrigð, vel hirt og snyrtileg hross til útflutnings. Gullna reglan á að vera að senda hrossið frá sér í því ásigkomulagi sem maður vildi sjálfur taka á móti því.


Getum við bætt efni síðunnar?