Fara í efni

Miðlun upplýsinga um ofnæmisvalda í óforpökkuðum matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú er að hefjast sameiginlegt eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sem ætlað er að kanna hvort matvælafyrirtæki sem selja óforpakkaðan mat, s.s. veitingastaðir, kaffihús, verslanir o.fl., fari að settum reglum hvað varðar upplýsingagjöf um ofnæmis- og óþolsvalda. Heilbrigðisfulltrúar um allt land munu á næstu mánuðum heimsækja matvælafyrirtæki sem selja óforpakkaðan mat, kanna hvaða aðferð fyrirtæki beita til að upplýsa viðskiptavini sína um ofnæmisvalda og hvort upplýsingar um ofnæmisvalda séu réttar.

Það eina sem einstaklingur með fæðuofnæmi- eða óþol getur gert til að hindra ofnæmisviðbrögð er að forðast ofnæmisvakann alveg með því að sniðganga matvæli sem innihalda hann. Lykilatriði er tryggja að neytendur fái ítarlegar upplýsingar um samsetningu matvæla. Eingöngu þannig geta þeir tekið upplýstar ákvarðanir um val á matvælum sem eru örugg fyrir þá. 

Í reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda er krafa um að öll matvælafyrirtæki þurfi að upplýsa um tilvist 14 algengustu innihaldsefna í matvælum sem geta valdið ofnæmis- og óþolsviðbrögðum. Þessir ofnæmisvaldar eru taldir upp í II. viðauka í reglugerðinni en hún tók gildi á Íslandi í lok árs 2014.

Þegar matvæli eru seld í neytendapakkningum þarf að leggja sérstaka áherslu á þau innihaldsefni sem geta valdið ofnæmi- eða óþoli með sérstakri letursetningu, sem aðgreinir þau skýrt frá öðrum heitum í listanum yfir innihaldsefni, t.d. með feitletrun eða öðruvísi bakgrunnslit. Þegar matvæli eru hinsvegar seld óforpökkuð, þ.e. þeim pakkað í umbúðir á sölustað að beiðni neytandans eða eru seld án umbúða, eiga neytendur einnig rétt á upplýsingum um hvort varan innihaldi ofnæmis- eða óþolsvalda. Matvælafyrirtæki hafa ýmsar leiðir til þess, s.s. með skriflegri merkingu við heiti vörunnar eða með öðru skriflegu efni sem upplýsir um eða fylgir matnum, t.d. á matseðli eða á áprentuðu skilti þar sem hann er pantaður. 

Upplýsingarnar má einnig veita munnlega en þá verða söluaðilar að hafa skilti á áberandi stað sem segir að starfsfólkið veiti upplýsingarnar um ofnæmis- eða óþolsvalda. Jafnframt verða þá að vera til taks skýrar upplýsingar um innihald matvæla sem eru á boðstólnum. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?