Meðferð sauðfjár í réttum
Frétt -
08.09.2010
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
|
|
Það er með ýmsu móti hvernig staðið er að sundurdrætti fjár eftir að það kemur úr sumarhögum. Víða er fé réttað í fjármörgum réttum þó að nú sé fjárfjöldinn ekki svipur hjá sjón hjá því sem var á síðustu öld. Í þessum réttum má ekki á milli sjá hvort er fleira fólk eða kindur. Óhjákvæmilega vill stundum verða heilmikill atgangur þegar verið er að reka kindurnar inn í almenninginn og handsama kindurnar. Þá er mikilvægt að við fullorðna fólkið séum þeim yngri til fyrirmyndar og gerum þeim grein fyrir að lömbin eru lifandi og þau eru hræddari við okkur en við við þau. Þess vegna er mikilvægt að fara vel að fénu og gera börnunum grein fyrir því að kindurnar eru ekki reiðskjótar. |
Það er einnig mikilvægt að fólkið sem er í almenningnum víki fyrir fénu í innrekstri og forðist að þrengja svo mikið að því að kindur troðist undir. Hundar eiga ekkert erindi í almenninginn og er varað sérstaklega við að farið sé með hunda hverrar tegundar eða stærðar sem er sem ekki eru vanir sauðfé inn í kindahóp. Góðir fjarhundar eru gulls ígildi, en það er á ábyrgð eiganda hundsins að hann bíti ekki kindur.
Á öðrum stöðum eru ekki réttir þar sem fé er réttað saman úr heilum sveitum, heldur er fé af takmörkuðu svæði dregið í sundur heima á bæjum. Þar sem þannig háttar eru talsverð brögð að því að fé sé dregið sundur inni í fjárhúsum. Það er afleit aðferð. Það er misjafn sauður í mörgu fé og hvar sem er á landinu geta verið kindur í fjársafni sem eru óvelkomnar af því að þær eru langt að komnar og geta borið með sér sjúkdóma sem sem ekki eru á þeim bæ sem dregið er sundur á eða á því svæði. Slíkar kindur geta hæglega smitað húsin þannig að erfitt getur orðið að losna við óþverann. Drykkjarílátin eru greið smitleið. Sýkingar eins og garnaveiki og pestarsýklar geta lifað lengi í húsunum.
Bændur eru hvattir þar sem sá siður hefur verið tekinn upp að draga í sundur inni í fjárhúsum að gera þá kröfu til samsveitunga sinna að gerð verði aðstaða úti með grindum til að drag fé í sundur. Þá hjálpar náttúran við að draga úr smitinu á milli rétta því sólskin og víxl frosts og þýðu hjálpar til við að fækka sýklum.
Ítarefni