Fara í efni

Matvælastofnun nýtur trausts

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Félagsvísindastofnun framkvæmdi símakönnun í febrúar 2011 þar sem þátttakendur voru spurðir um hversu mikið eða lítið traust þeir bæru til Matvælastofnunar (MAST).  
Tekið var 1200 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá meðal fólks 18 ára og eldra og var nettó svarhlutfall 63%. Hringt var í þátttakendur dagana 5. – 16. febrúar 2011. Dreifing í úrtaki og meðal svarenda eftir kyni, aldri og búsetu, ásamt svarhlutfalli í hverjum hópi, gaf til kynna að svarendur könnunarinnar endurspegli nokkuð vel þjóðina þegar litið er til kyns og búsetu. Þegar litið er til aldurs má sjá að svarhlutfall þeirra yngstu er lægra en í öðrum aldurshópum og sömuleiðis er svarhlutfall þeirra sem eru á miðjum aldri heldur hærra.

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að meirihluti svarenda, eða 60% bera frekar mikið eða mjög mikið traust til MAST. Fjórðungur svarenda ber hvorki mikið eða lítið traust til stofnunarinnar, en 12% sögðust bera frekar lítið og 5% mjög lítið traust til MAST. Hlutfallslega fleiri konur (64%) en karlar (54%) bera mikið traust til MAST. Samband var milli aldurs og trausts, en MAST nýtur frekar trausts frá yngri aldurshópum. Um 68% svarenda á aldrinum 18 til 29 ára bera mikið traust til MAST og 60% þeirra sem eru á aldrinu 30 til 39 ára.


Í lok febrúar birti Capacent niðurstöður könnunar þar sem spurt var um traust til stofnana og má sjá niðurstöður þeirrar könnunar hér. Úrtakið í þessum könnunum og svörun var mjög svipuð og spurningin um traust til stofnana sú sama í báðum könnunum. Samanburður á þessum könnunum sýnir að Matvælastofnun flokkast ofarlega þegar litið er til hlutfalls þeirra sem bera mikið traust til stofnana. Það er hvetjandi að ung stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun eins og MAST njóti þetta mikils traust í samfélaginu og mun stofnunin kappkosta að viðhalda því trausti og bæta um betur.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?