Fara í efni

Matvælastofnun heimilað með dómsúrskurði að fara inn á heimili til eftirlits með dýrahaldi

Samkvæmt dýravelferðarlögum er Matvælastofnun heimilað að fara í eftirlitsheimsóknir á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra og við beitingu þvingunarúrræða ef þess þarf.

Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði.

Nýlega óskaði Matvælastofnun eftir því við héraðsdóm Reykjaness að úrskurðað væri að eftirlitsmenn stofnunarinnar fengju að fara inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu til að kanna velferð gæludýra. Fjölmargar ábendingar höfðu borist um að velferðinni væri ábótavant en húseigandi neitaði um inngöngu.

Dómarinn féllst á beiðnina og efirlit fór fram í kjölfarið. Málinu er nú fylgt eftir með úrbótakröfum stofnunarinnar.


Getum við bætt efni síðunnar?