Fara í efni

Matarsýking vegna neyslu á smygluðu kjöti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Í lok september greindust tveir einstaklingar með Salmonella Enteritidis á sýklafræðideild Landspítalans, en við nánari athugun kom í ljós að báðir aðilarnir höfðu tekið þátt í 40 manna matarveislu í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Við rannsókn kom í ljós að meðal matfanga voru hollenskar andabringur, sem smyglað hafði verið til landsins. Bringurnar munu hafa verið framreiddar vel rauðar. Alls munu átta manns hafa veikst eftir veisluna. Frystar hráar bringur voru ennþá til og var Salmonella enteritidis staðfest í þeim.

Baktería þessi er þekkt fyrir að valda mjög alvarlegum sýkingum og jafnvel dauðsföllum í fólki. Hér á landi greinist Salmonella Enteritidis yfirleitt í tengslum við ferðir fólks erlendis en stöku tilfelli af innlendum uppruna greinast þó árlega. Þó skal minnt á umfangsmikla  matarsýkingu sem kom upp fyrir nokkrum árum á Landsspítalanum, þar sem nokkrir létust af völdum þessarar bakteríu og tengdist neyslu á rjómabollum. Uppruni þeirrar sýkingar var aldrei rakinn með fullri vissu.

Matvælastofnun og sóttvarnalæknir vilja af þessu tilefni vekja athygli almennings, matvælafyrirtækja og matreiðslumanna á að hér er um alvarlegan atburð að ræða af eftirfarandi ástæðum.


  1. Allur innflutningur á hráu kjöti er bannaður samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Ofangreindur innflutningur er því lögbrot. Heimilt er að sækja um leyfi til innflutnings og þegar undanþáguheimild er veitt þá er þess gætt að öll vottorð fylgi með sem staðfesta að  sjúkdómsvaldandi  örverur fyrir menn og dýr  séu ekki til staðar í kjötinu.
  2. Það eru gömul sannindi og ný að allt fuglakjöt á að gegnumsjóða eða steikja vel til að tryggja eyðingu sjúkdómsvaldandi örvera sem gætu leynst í kjötinu.  Það tilfelli sem hér um ræðir er staðfesting  á þessu.


Við þurfum öll að standa saman um að gæta góðrar heilsu manna og dýra. Um næstu mánaðarmót tekur ný matvælalöggjöf að fullu gildi hér á landi. Í henni kemur fram áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti, en áfram verður hægt að sækja um undanþágur til innflutnings. Matvælatvælastofnun  og sóttvarnalæknir leggja því áherslu á að allir virði þessar reglur og vekur athygli á því að slíkt bann gildir einnig um egg og ógerilsneyddar mjólkurafurðir, svo sem osta unna úr ógerilsneyddri mjólk. Ferðamenn sem koma til landsins með soðin matvæli, þar sem staðfest er á umbúðum að varan hafi hlotið tilskylda hitameðferð, þurfa ekki að framvísa sérstökum vottorðum vegna vörunnar og er innflutningur hennar þá heimill að uppfylltum þessum skilyrðum.
 
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis


Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?