Fara í efni

Lyfjaþol í Evrópu 2014

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Stöðug aukning á sýklalyfjaþoli baktería í dýrum, mönnum og umhverfi er sameiginlegt áhyggjuefni allra. Stefna Evrópusambandins er að vakta markvisst tilvist sýklalyfjaþolinna baktería og er það hlutverk Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC) og Evrópsku Matvælaöryggisstofnunarinar (EFSA ) að greina sameiginlega niðurstöður mælinga og gefa árlega út skýrslu um stöðu mála. 

Nýjasta skýrslan sem birt var 11. febrúar s.l. er samantekt ársins 2014 og fjallar hún um sýklalyfjaþol baktería sem teljast til náttúrulegrar flóru og baktería sem valda súnum (sjúkdómar sem berast á milli manna og dýra). Aðildarríki ESB og EFTA ríkin Ísland, Noregur og Sviss veittu þær upplýsingar sem skýrslan byggir á.

ECDC og EFSA vara við útbreiðslu á sýklalyfjaþoli baktería, sem finnast jafnt í mönnum, dýrum og matvælum,  gegn þeim sýklalyfjum sem mest eru notuðu í Evrópu. Sérstaklega er bent á að minnkandi möguleikar eru á að meðhöndla alvarlegar kampýlóbaktersýkingar í fólki vegna útbreiðslu þols gegn ciprofloxacin sýklalyfjum. Ciprofloxacin er talið vera mikilvægt úrræði þegar önnur sýklalyf virka ekki. Salmonellustofnar sýna áfram fjölónæmi, en það eru bakteríur sem þola þrjú eða fleiri sýklalyf. Útbreiðsla lyfjaþols baktería er ekki jöfn um Evrópu, hæsta tíðni lyfjaþols er í Austur- og Suður-Evrópu. Í Norður-Evrópu er tíðnin lægri, sérstaklega í ríkjum þar sem sýklalyf eru lítið notuð í dýr.

Varasamt er að einblína á lyfjaþolið eitt og sér þegar lagt er mat á hættuna af því að smitast af sýklalyfjaþolnum bakteríum í Evrópu, því útbreiðsla sjúkdómsvaldandi baktería í hverju ríki skiptir einnig miklu máli. Evrópska súnu skýrslan sem gefin er út árlega af EFSA veitir þar góð svör. Í skýrslunni fyrir árið 2014 kemur fram að kampýlóbaktersýkingar í fólki eru enn að aukast, en kampýlóbakter er algengasta orsök matarsýkinga í Evrópu og hefur verið það frá árinu 2005. Í þessu ljósi er aukið lyfjaþol kampýlobaktersýkla áhyggjuefni í Evrópu. Tíðni kampýlóbaktersýkinga í fólki hérlendis er vel undir meðaltali í Evrópu, þökk sé sameiginlegu átaki stjórnvalda og kjúklingaframleiðenda frá árinu 2000 til að stemma stigu við kampýlóbakter í kjúklingum.

Í skýrslunni um lyfjaþol kemur fram að á árinu 2014 var sérstök áhersla lögð á skimun baktería úr kjúklingum, kjúklingakjöti og varphænum. Salmonellustofnar sýndu tiltölulega háa tíðni lyfjaþols, en þol gegn sýklalyfjum er mismunandi á milli sermisgerða, en salmonella skiptist í fjölmargar sermisgerðir. Hérlendis greindust fáir salmonellustofnar í alifuglum, en þeir stofnar sem greindust voru næmir fyrir öllum sýklalyfjum nema súlfonamid. Ekkert þol greindist í íslenskum stofnum gegn sýklalyfjum sem eru mikilvæg til meðhöndlunar á fólki. Í nokkrum ríkjum voru salmonellustofnarnir óvenju þolnir gegn t.d. ciprofloxacin og nalidixinsýru. Enginn íslenskur salmonellustofn sýndi þol gegn tveimur eða fleirum sýklalyfjum, sem má teljast gott samanborið við önnur ríki. Þess ber þó að geta að Ísland getur ekki borið sig saman við Noreg, Svíþjóð  og Finnland því þar greindist ekki Salmonella í kjúklingum eða kjúklingakjöti árið 2014.

Allir kampýlóbakterstofnar (Campylobacter  jejuni) sem greindust í íslenskum kjúklingum voru næmir fyrir öllum sýklalyfjum fyrir utan einn stofn (3,6%), en sá stofn var með þol gegn tveimur sýklalyfjum. Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður, sérstaklega í ljósi þess hve tíðni kampýlobaktersmits í kjúklingaeldi er lág hérlendis. Í öllum öðrum ríkjum var tíðni sýklalyfjaþols kampýlóbaktería úr kjúklingum meiri en hér. Þol gegn ciprofloxacin var í mörgum löndum mjög mikið, eða að meðaltali í 70% stofna. Einungis fjögur ríki skiluðu inn niðurstöðum um þol á stofnum úr kjúklingakjöti, en ekki Ísland, þar sem kampýlóbaktersmit í kjúklingakjöti var ekki mælt árið 2014. Síðasta stóra könnunin á neytendamarkaði hér á landi var gerð yfir 12 mánaða tímabil frá maí 2012 til apríl 2013 í samvinnuverkefni Matvælastofnunar og Matís. Þá voru tekin til rannsóknar 537 sýni af kjúklingaafurðum og fannst hvorki salmonella né kampýlóbakter í þessum sýnum. Sýnatökur á markaði koma til viðbótar við öflugt eftirlit með eldi alifugla og við slátrun þeirra.

Í skýrslunni koma fram niðurstöður mælinga á þoli gegn cephalosporin sýklalyfjum (af þriðju kynslóð lyfjanna), í náttúrlegri flóru E. coli baktería í kjúklingum. Það þýðir að sýni eru tekin úr heilbrigðum dýrum og eru þessar E. coli bakteríur ekki sjúkdómsvaldandi. Ef þær eru með þol, þá eru þær gjarnan kallaðar ESBL/AmpC myndandi E. coli. Það er fylgst með næmi þeirra fyrir sýklalyfjum vegna þess að ónæmisgen geta hugsanlega borist frá þeim yfir í sjúkdómsvaldandi bakteríur. Ef ónæmisgenin eru t.d. staðsett á svokölluðum plasmíðum í bakteríunni þá er dreifing þessara gena yfir til annarra baktería auðveld. Þess vegna er fylgst með staðsetningu ónæmisgena í bakteríum. Einnig var fylgst með þoli gegn carbapenem sýklalyfjum, en undanfarin ár hafa gramneikvæðar bakteríur myndað aukið þol gegn þessum flokki sýklalyfja. Þetta veldur sérstökum áhyggjum með tilliti til lýðheilsu, því carbapenem sýklalyf eru talin vera síðasta úrræðið í meðhöndlun á fólki sem sýkt er af fjölónæmum bakteríum eins og t.d. sjúkdómsvaldandi ESBL/AmpC myndandi E. coli.

Sérstök leit að ESBL/AmpC myndandi E. coli var valkostur í verkefni Evrópusambandsins árið 2014. Voru það aðeins sex ríki sem framkvæmdu hana og þar á meðal Ísland. Betri samanburður fæst árið 2017, en þá er gert ráð fyrir að þessar mælingar verði framkvæmdar í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) auk Sviss, sem á aðild að EFTA en ekki EES. Almennt má þó draga þá ályktun að tilvist ESBL/AmpC myndandi E. coli er lítil og ekki fundust stofnar með þol gegn carbapenem sýklalyfjum.

Staphylococcus aureus bakteríur sem eru fjölónæmar kallast methicillin ónæmar Staph. aureus, eða MÓSA (en: MRSA). Í mörg ár hafa þær  verið þekktar fyrir að valda sýkingum í fólki. Þær eru flokkaðar í þrjár flokka: heilbrigðiskerfis-, samfélags- og búfjártengdar MÓSA. Búfjártengdar MÓSA greinast aðallega í svínaeldi, en einnig í kjúklingaeldi og í öðrum búfjártegundum. Þessir búfjártengdu stofnar finnast líka í fólki og sem fyrr bendir allt til þess að fólk smitist fyrst og fremst við beina umgengni við smituð dýr, en síður í gegnum mengað kjöt eða milli smitaðra einstaklinga. Árið 2014 leitaði Ísland í fyrsta skipti að MÓSA í svínum, en þær fundust ekki í þeim sýnum sem tekin voru. Sex önnur ríki birtu einnig niðurstöður um MÓSA í dýrum, m.a. gæludýrum og fundu þær í mismiklum mæli. Noregur leitaði ítarlega í svínum, en fann einungis MÓSA í einu sýni, sem var búfjártengdur stofn. Takmarkaður fjöldi ríkja leitaði að þessum bakteríum í matvælum, svo sem ostum, kjöti úr ýmsum dýrategundum og grænmeti. MÓSA fannst í kjöti úr kjúklingum, kalkúnum og svínum. Samkvæmt skýrslunni smitast fólk sjaldan í gegnum matvæli. Tilvist MÓSA er fyrst og fremst áhyggjuefni vegna lýðheilsu og er tíðnin mest í fólki í Suður- og Suðaustur Evrópu.

Afar mikilvægt er að gæta nákvæmni í umræðu um hættur sem stafa af vaxandi þoli baktería gegn sýklalyfjum. Bakteríur eru jafn ólíkar innbyrðis og aðrar lífverur, það sem gildir um eina bakteríutegund á ekki endilega við um aðra. Erfðaefnið sem veitir bakteríum þol gegn sýklalyfjum getur færst og þá með mismunandi hætti í aðrar bakteríur. Margir þættir hafa áhrif á hvort og hvenær það gerist. Það er ekki öruggt að bakteríur sem teljast til náttúrulegrar flóru (t.d. E. coli) í einni dýrategund nái fótfestu í annarri dýrategund, þar á meðal í fólki. Þess vegna er ekki öruggt að erfðaefnið sem veitir bakteríunum t.d. þol gegn sýklalyfi flytjist á milli. Aukið lyfjaþol baktería er engu að síður talið ein alvarlegasta heilbrigðisógn samtímans og því eru rannsóknir í fullum gangi víða um heim til að afla betri þekkingar og vinna gegn þeirri hættu sem af þessu getur stafað.

ÍtarefniGetum við bætt efni síðunnar?