Fara í efni

Lítil notkun sýklalyfja í dýrum á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eru strangar reglur hér á landi og lyfjastefna Dýralæknafélags Íslands (DÍ) um notkun sýklalyfja í dýr að bera árangur? 

Samkvæmt skýrslu Landlæknis um sýklalyfjanotkun 2012 og skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu um sölu sýklalyfja fyrir dýr árið 2010 er minnst notað af sýklalyfjum í dýr á Íslandi og yfir helmingur sýklalyfja fyrir dýr eru úr flokki penicillina.

Ekki er ólíklegt er að þennan góða árangur megi rekja til lyfjastefnu DÍ og íslenskrar reglugerðar sem kveður á um að ekki megi nota sýklalyf í dýr nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis og að dýralæknir verði að hefja meðhöndlun sjálfur. Eitt af markmiðum lyfjastefnu DÍ er að hindra myndun ónæmis gegn sýklalyfjum og tryggja þannig möguleika á notkun þeirra í framtíðinni með því að draga úr notkun lyfja eins og kostur er og í stefnunni segir m.a. að penicillin skuli ávallt vera fyrsta val við sýklalyfjagjöf í dýr. Síðustu þrjú árin hefur notkun sýklalyfja í dýr dregist saman um 23%, en á sama tíma hefur notkun breiðvirkra penicillina aukist sem er áhyggjuefni og þarfnast frekari skoðunar.

Sýklalyfjanotkun er áhrifamesti þátturinn í vali og dreifingu lyfjaþols, hvort heldur lyf eru notuð í dýr eða menn. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja eykur hættu á uppkomu og útbreiðslu lyfjaþolinna örvera sem er ein stærsta heilbrigðisógn heimsins. Lyfjaþol er þegar örvera er ónæm fyrir örverudrepandi áhrifum lyfja sem hún var áður næm fyrir.

Rafrænar skráningar lyfjanotkunar í dýr eru nýlega hafnar hér á landi og rekur Matvælastofnun gagnagrunninn „Heilsu“ til að safna upplýsingum frá dýralæknum. Á komandi árum mun Matvælastofnun geta tekið saman magn sýklalyfja sem notað er í hverja dýrategund auk tilefna sýklalyfjanotkunar. Fram til þessa hefur lyfjanotkun í dýr hér á landi verið metin út frá magni seldra dýralyfja hjá lyfjaheildsölum og því ekki greinanleg eftir dýrategund og raunverulegri notkun.

Matvælastofnun hefur eftirlit með súnum (sjúkdómar sem berast milli manna og dýra) og fylgist með lyfjanæmi tiltekinna baktería, s.s. salmonellu. Enn sem komið er eru fá tilfelli um lyfjaþol salmonellustofna á Íslandi, en algengast er þol fyrir ampicillini, erfitt er þó að draga ályktanir um hvort um aukningu á lyfjaþoli er að ræða þar sem fáir salmonellustofnar greinast ár hvert. Matvælastofnun telur áríðandi að bæta og auka vöktun lyfjaþols örvera í fóðri, dýrum og matvælum þannig að upplýsingar um stöðu og þróun lyfjaþols sé ljós hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Lind Rúnarsdóttir hjá Matvælastofnun

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?