Fara í efni

Lifrarbólgu A faraldur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Frá 1. október 2012 til 8. apríl 2013, hafa 16 einstaklingar í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi verið greindir með lifrarbólgu A af undirtegund 1B, sem við nákvæma stofnagreiningu eru nánast eins. Enginn þessara einstaklinga hafði ferðast til útlanda á meðgöngutíma smitsins, þ.e. tímanum frá smiti til upphafs veikinda. Á sama tímabili hafa að auki 40 manns frá sömu löndum og án ferðasögu, greinst með lifrarbólgu A, en stofnagreining á veirum frá þessum einstaklingum var ekki gerð. Samkvæmt þessu er í gangi lifrarbólgu A faraldur, sem nær til margra Evrópulanda samtímis og talið er líklegt að fleiri eigi eftir að greinast. 

Grunur leikur á að frosin ber geti verið uppruni sýkinganna samkvæmt samanburðarrannsókn (case – control study), sem var gerð í Danmörku og spurningalista, sem var lagður fyrir þá sem sýktust á hinum Norðurlöndunum. Einna sterkust er tengingin við frosin jarðaber en ekki hefur tekist að finna tengsl við sérstök vörumerki eða framleiðanda. Ítarleg rannsókn á uppruna smitsins er í gangi á Norðurlöndum.

Matvælastofnun og Sóttvarnalæknir mælast til að öll innflutt frosin ber séu soðin í a.m.k. eina mínútu áður en þeirra er neytt. Þetta er í samræmi við sameiginlegt áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA).

Á síðastliðnu ári greindust fjórir einstaklingar með lifrarbólgu A á Íslandi, en enginn þeirra uppfyllir skilyrði skilgreiningarinnar fyrir þennan faraldur á Norðurlöndunum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?