Fara í efni

Leyfileg litarefni í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Leyfileg litarefni í matvælum

Umræða hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um litarefni í matvælum. Neytendasamtökin hafa lagt áherslu á að minnkuð verði notkun litarefna sem notuð voru í svokallaðri Southampton rannsókn og sem sagt er frá hér að neðan. Neytendasamtökin benda á að samkvæmt Reglugerð Evrópusambandsins (EB) um aukefni sé framleiðendum í Evrópu skylt að setja varúðarsetningu á umbúðir matvæla sem innihalda þessi litarefni og að ýmis fyrirtæki erlendis hafi hætt notkun litarefnanna. Matvælastofnun vill koma því á framfæri að ákvæðið um að merkja skuli umbúðir með varúðarmerkingu þegar þessi litarefni eru notuð er ekki komið inn í íslenskar reglur, en mun gera það þegar ný reglugerð um aukefni tekur gildi hérlendis. 
Komið hefur fram að einhver fyrirtæki hafa, vegna gagnrýni á þessi litarefni, hætt eða minnkað notkun þeirra, en ekki breytt merkingum til samræmis við það. Matvælastofnun bendir á að samkvæmt reglugerð um merkingu matvæla á innihaldslýsing á matvælum að segja til um innihald þeirra. 
Reglugerð nr. 285/2005 um aukefni, með síðari breytingum, segir til um hvaða litarefni eru leyfileg í mismunandi matvæli og í hve miklu magni.  

Southampton rannsóknin 

Birtar voru í Lancet 6. september 2007 niðurstöður rannsókna sem háskólinn í Southampton vann í samráði við bresku matvælastofnunina (Food Standard Agency). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort neysla á blöndu af nokkrum litarefnum og einu rotvarnarefni hefði áhrif á hegðunarmunstur barna. Um er að ræða eftirfarandi efni Litarefnin: tartrasín (E 102), quinoline yellow (E104), sunset yellow FCF (E 110), asórúbín (E 122), ponceau 4R (E 124) og allúra rautt ( E 129). Rotvarnarefni: natríumbensóat (E 211). 

Litarefnin voru notuð í tveimur mismunandi blöndum en rotvarnarefnið var í báðum blöndunum. Niðurstöður rannsóknarinnar þóttu gefa til kynna að hugsanlega geti neysla á blöndu af þessum rotvarnar- og litarefnum haft áhrif á hegðunarmunstur barna á þann hátt að ofvirkni aukist.  

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) fór vísindalega yfir rannsóknina og niðurstöður hennar og taldi að ekki væri hægt að draga miklar ályktanir út frá henni um áhrif þessara efna á hegðun og athygli barna og ekki hægt að tengja þau áhrif við ákveðið efni, vegna þess að blanda efna var notuð. Samt sem áður ákvað EB að setja inn í nýjar aukefnareglur að merkja skuli matvæli sem innihalda einhver þeirra litarefna sem notuð voru í rannsókninni með viðvöruninni: 
‘name or E number of the colour(s)’: may have an adverse effect on activity and attention in children (Litarefnið x getur haft óæskileg áhrif á hegðun og athygli barna). Þetta tók gildi í EB í júlí 2010, en litarefnin eru áfram leyfileg í sömu matvörur og áður.  

Mat á litarefnum 

EB hefur falið EFSA að endurmeta öll aukefni samkvæmt tímasettri áætlun. Litarefnin voru sett í forgang og hefur EFSA birt matsniðurstöður um öll litarefnin sem voru í Southampton rannsókninni og lækkaði stofnunin daglegt neyslugildi (ADI) gildi þriggja þeirra þe E 104, E 110 og E 124. Eftir er að breyta reglum um hámark aukefnanna í matvælum til samræmis, en sú vinna er í gangi í EB. Samkvæmt gögnum EFSA um neyslu matvæla er inntaka þessara efna of mikil miðað við nýju ADI gildin. ADI gildi hinna þriggja litarefnanna (E 102, E 122, E 129) er óbreytt, en talið er að eingöngu börn sem neyta mjög mikils af matvælum sem innihalda þessi litarefni geti farið yfir ADI gildi þeirra. 

ADI gildi segir til um hve mikils af efninu má neyta daglega alla ævi án þess að verða fyrir heilsuskaðlegum áhrifum. ADI stendur fyrir acceptable daily allowance, þýtt á íslensku sem daglegt neyslugildi. ADI gildi er gefið upp sem mg af aukefni sem má neyta miðað við kg líkamsþunga, þannig að t.d. má 20 kg barn neyta 20x ADI gildi. Öryggisstuðull er á ADI gildum, í langflestum tilfellum er hann 100 faldur, þannig að ADI gildið er 100 falt hærra en mesta magn sem olli engum einkennum í dýrum í dýratilraunum. ADI gildi eru miðuð við langtímaáhrif, þannig að ekki á að vera hætta á heilsuskaða þó farið sé eitthvað yfir ADI gildin tímabundið.  


Getum við bætt efni síðunnar?