Fara í efni

Leiðbeiningar um aflífun á alifuglum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hafa borist ábendingar um myndband sem sýnir aflífun hænu með öflugu höggi á bárujárnsbrún þannig að hausinn fór af. Atvikið er til rannsóknar hjá Matvælastofnun.

Samkvæmt lögum um velferð dýra skulu dýr aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti. Fyrir aflífun skulu þau svipt meðvitund nema aflífunin valdi meðvitundarleysi umsvifalaust. Afhausun uppfyllir ekki skilyrði laga nema dýrið sé rotað fyrst, í tilfelli lítilla dýra eins og hæna þá næst það best fram með öflugu höfuðhöggi. Þó rothöggið valdi samtímis afhausun, þá ef meðvitundarleysi heilans er tryggt þegar hausinn fer af, er aðferðin lögleg. Afhausun á dýri með fulla meðvitund er hins vegar ólögleg, óháð því með hvaða hætti afhausunin á sér stað.

Á vef Matvælastofnunar má finna leiðbeiningar um aflífun alifugla og er tilgangur leiðbeininganna að tryggja að nauðsynleg þekking sé til staðar og eingöngu mannúðlegar aðferðir séu notaðar við aflífun. Matvælastofnun hvetur alla sem halda alifugla eða sem koma að aflífun þeirra að kynna sér þessar leiðbeiningar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?