Fara í efni

Leiðbeininar frá yfirdýralækni vegna innflutnings á matvælum og dýrum með MS Norrænu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

HVAÐA MATVÆLI MÁ HAFA MEÐFERÐIS TIL LANDSINS?

Kjöt


  • Hrátt kjöt - ferðamönnum er óheimilt er með öllu að flytja hrátt kjöt til Íslands. Einungis er heimilt að flytja hrátt kjöt til landsins þegar öllum tilskildum vottorðum skv. 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 509/2004 hefur verið framvísað við embætti yfirdýralæknis til umsagnar og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið formlegt innflutningsleyfi.
  • Soðið kjöt - allt að 3 kíló af soðnu kjöti má hafa meðferðis. Sanna þarf að kjötið sé soðið. Það verður á koma greinilega fram á umbúðum að varan sé soðin, að öðrum kosti er hún álitin ólögleg, verður gerð upptæk af tollgæslu og henni eytt. Óyggjandi merking um suðu getur verið "semicooked", "cooked", "fully cooked" þegar um kjötvörur er að ræða. Niðursoðið kjöt telst vera soðið og er því löglegt. Ekki er nægjanlegt að vara sé t.d. söltuð eða reykt.


Ostar

  • Hafa má meðferðis allt að 3 kíló af ostum, ef þeir eru sannanlega gerilsneyddir. Það verður á koma greinilega fram á umbúðum að osturinn sé unninn úr gerilsneyddri mjólk, að öðrum kosti er hann talinn ólöglegur, verður gerður upptækur af tollgæslu og honum eytt.


HESTAMENN ATHUGIÐ

Vegna landfræðilegrar einangrunar, strangra reglna um innflutning og allmennrar vitundar almennings um sérstöðu íslenska hestsins hefur tekist að halda öllum alvarlegum smitsjúkdómum bæði frá hestinum og öðrum búfénaði í áratugi. Hestar eru ekki bólusettir á Íslandi og mjög viðkvæmir fyrir utanaðkomandi smitefnum.

Bannað er að koma með notuð reiðtygi og hestakerrur til Íslands.

Óheimilt er að flytja til landsins notaðan reiðfatnað sem ekki er unnt að þvo eða sótthreinsa á öruggan hátt, t.d. leðurhanska, -stígvél, -skó og -jakka, vaxjakka og -frakka og hjálma.

Sótthreinsun á öðrum reiðfatnaði

Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa fyrir komu til landsins, reiðstígvél og -skó skal sótthreinsa. Fatnað sem hefur verið notaður í tengslum við önnur dýr skal meðhöndla á sama hátt.


LIFANDI DÝR


Óheimilt er með öllu að flytja með sér lifandi dýr til Íslands með MS. Norrænu.

ATH! Reglugerð ESB No. 998/2003 um gæludýravegabréf og flutninga gæludýra milli aðildarlanda ESB, gildir ekki á Íslandi.

Innflutningsleyfi

Samkvæmt reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis skal innflytjandi sækja um innflutningsleyfi til landbúnaðarráðuneytisins og skuldbinda sig þar með að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir setur sem skilyrði til innflutnings og einangrunar. Dýr sem flutt eru til landsins skal flytja með flugi og Keflavíkurflugvöllur er eini samþykkti innflutningsstaðurinn.

Einangrun

Öll gæludýr sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skulu vera í einangrun í 4 vikur. Sækja þarf um pláss fyrir hunda og ketti í einangrunarstöð gæludýra í Hrísey en kanínur, nagdýr, búrfuglar, skrautfiskar og vatnadýr verða að vera í heimasóttkví, sem er tekin út af viðkomandi héraðsdýralækni fyrir komu dýrsins.


Birt á vef Yfirdýralæknis þann  9. júní, 2005.


Getum við bætt efni síðunnar?