Fara í efni

Landsmóti hestamanna frestað

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna smitandi hósta í hrossum funduðu fulltrúar Matvælastofnunar með hagsmunaaðilum í hestamennsku og hrossarækt, ásamt starfandi dýralæknum og fulltrúum leiðbeiningaþjónustu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 31. maí 2010 þar sem eftirfarandi ályktun samþykkt.

  • Fundurinn samþykkir að fresta Landsmóti hestamanna sem fram átti að fara á Vindheimamelum í Skagafirði 27. júní til 4. júlí í sumar.
    Fundurinn beinir því jafnframt til stjórna Landssambands hestamannafélaga (LH) og Bændasamtaka Íslands (BÍ) að þær vinni að því í góðu samstarfi við Alþjóðasamtök Íslandshestafélaga (FEIF) að mótið verði haldið árið 2011 á Vindheimamelum í Skagafirði.
    Jafnframt skorar fundurinn á áður nefnd samtök að endurskoða sýninga- og keppnishald næstu mánaða þannig að öll hross sem stefnt var með í dóma,  sýningar og keppni á árinu eigi þann möguleika.
  • Fundurinn skorar á Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum að rannsakaður verði til hlítar sá smitandi hósti sem nú herjar á íslenska hrossastofninn. Leita þarf allra leiða til að greina eðli og uppruna sjúkdómsins svo og hvort eitthvað það í hrossahaldi landsmanna sé þess valdandi að erfiðara sé að fást við þá stöðu sem upp er komin en ella. Sett verði fram skipuleg sóttvarnaráætlun til að fyrirbyggja að smitsjúkdómar nái hér bólfestu í framtíðinni.
    Fyrir liggur að rannsóknir þær og aðgerðir sem grípa þarf til eru mjög kostnaðarsamar. Fundurinn skorar því á stjórnvöld að tryggja Matvælastofnun og Tilraunastöðinni að Keldum nægjanlegt fjármagn til allra þeirra aðgerða sem grípa þarf til.
  • Ljóst er að fjárhagslegt tjón hrossaræktenda, hestaíþróttarinnar og annarrar hestatengdrar starfsemi auk ferðaþjónustu er þegar orðið gífurlegt. Þá hefur Landsmót hestamanna ehf., einnig orðið fyrir miklum skakkaföllum því er afar brýnt að stjórnvöld tryggi fjárhagslegan grunn landsmótshalds til framtíðar. 


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?