Fara í efni

Landsáætlun um varnir og viðbrögð við salmonellu í alifuglum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun gefur út landsáætlanir um varnir og viðbrögð (LÁVV) við ýmsum súnum, sem eru sjúkdómar sem geta borist milli dýra og manna. Fyrsta landsáætlunin, sem er um varnir og viðbrögð við salmonellu í alifuglum var gefin út skömmu fyrir áramót. Hún er birt á heimasíðu stofnunarinnar.

Í landsáætluninni kemur fram að vakta skuli salmonellu í alifuglarækt á öllum stigum framleiðslunnar og í fóðri. Í áætluninni er að finna lýsingu á alifuglaræktinni hérlendis, skilgreiningu á hvaða stofnanir og aðilar koma að vöktuninni og því lýst hvernig mismunandi alifuglahópar eru vaktaðir með nákvæmum útlistingum á sýnatökunum sjálfum og greiningum. Síðast en ekki síst kemur fram hvernig skuli bregðast við ef salmonella finnst í sýni.

Í áratugi hefur Salmonella í alifuglum verið vöktuð reglubundið hérlendis, skv. sértækum reglugerðarákvæðum, en nú er í fyrsta sinn gefið út heildstætt yfirlit sem tekur til allrar reglna sem gilda um vöktun og viðbröð.  Landsáætlunin spannar öll stig framleiðslunnar, þ.e. frá framleiðslu alifuglafóðurs, eldi fuglanna, slátrun, vinnslu og að kjúklingum og eggjum á markaði.  Frá og með árinu 2008 var aukin vöktun á stofnfuglahópum (foreldrafuglar), skv. reglugerð nr. 1011/2011 sem innleiddi reglugerð (EB) nr. 2160/2003. Áður hafði Matvælastofnun gefið út áætlun um vöktun sem núverandi landsáætlun leysir af hólmi. Niðurstöður vöktunar á salmonellu í alifuglum er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?