Fara í efni

„Kynnum kindina“ sigrar fyrsta Lambaþon

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

„Kynnum kindina“ sigraði fyrsta Lambaþonið. Keppnin átti sér stað um helgina og er keppt um bestu hugmyndina til að auka verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár.

„Kynnum kindina“ gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að upplifa með auðveldum hætti ýmis störf í sveitum landsins sem tengjast sauðfé.

Sigurliðið skipuðu Arnþór Ævarsson, Magnea Jónasdóttir og Kári Gunnarsson og hlutu þau 200 þúsund í verðlaun. Dómnefnd skipuðu Guðjón Þorkelsson, sem var formaður hennar, Arnar Bjarnason, Bryndís Geirsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir.

Sigurvegarar Lambaþon 2018

Sigurliðið hefur jafnframt komið hugmyndavinnunni skrefi lengra þar sem enskt vinnuheiti „Sheepadvisor“ var nefnt sem möguleg leið til að komast nær erlendum gestum lands og þjóðar með þær upplýsingar sem kynna þarf fyrir erlendum ferðamönnum, hvor svo sem þær snúast um þar hvar má bragða á réttum sem unnir eru úr sauðfjárafurðum, hvar vörur úr íslenskri ull eru seldar, hvaða viðburðir eru á döfinni sem viðkoma sauðfjárrækt eða hvað annað sem þurfa þykir.

Alls kepptu 6 lið í keppninni, sem var hnífjöfn. Mikil hugmyndaauðgi einkenndi keppendur og voru margar hugmyndir um áframhaldandi þróun og samstarf á lofti við lok keppninnar.

Að atburðinum stóðu Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?