Fara í efni

Kynningarfundur um matvælalöggjöf

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Eins og kunnugt er vinnur Ísland að því að taka upp löggjöf ESB um hollustuhætti fyrir matvæla- og fóðurfyrirtæki í samræmi við skuldbindingar sínar vegna EES-samningsins. Hinn 1. mars á síðasta ári tók löggjöfin gildi á Íslandi hvað varðar sjávarfurðir og fóður og 1. nóvember n.k. mun hún taka gildi að fullu og ná þá einnig yfir búfjárafurðir svo sem kjöt, egg og mjólk. Af því leiðir að eftir 1. nóvember 2011 munu öll íslensk fyrirtæki sem framleiða matvæli úr dýraafurðum og selja vörur sínar á Íslandi sem og annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu verða að uppfylla þessar kröfur. 

  Matvælastofnun mun halda kynningarfund þar sem verður farið yfir kröfur löggjafarinnar og gerð grein fyrir þeim atriðum sem stjórnendur fóður- og matvælafyrirtækja bera ábyrgð á. Einnig verður á fundinum gerð grein fyrir mögulegu svigrúmi vegna krafna löggjafarinnar, en smásalar, sem vinna afurðir úr kjöti, mjólk og eggjum eru til dæmis undanþegnir sumum ákvæðum hennar að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Þá verður sérstaklega gerð grein fyrir komandi úttektum á fóður- og matvælafyrirtækjum  sem MAST vinnur að. Markmiðið er  að greina stöðu íslenskra fyrirtækja og hvaða úrbóta er þörf til að þau uppfylli kröfur löggjafarinnar og komist á lista yfir samþykkt fyrirtæki sem megi selja vörur á evrópska efnahagssvæðinu. MAST hefur unnið  að undirbúningi verkefnisins í samstarfi við sérfræðinga frá aðildarríkjum Evrópusambandsins sem MAST hefur haft aðgang að í gegnum TAIEX (Technical Assistance and Information Change) aðstoð Evrópusambandsins.  Í kjölfar úttektarinnar eiga fyrirtækin að leggja fram úrbótaáætlun sem verður fylgt eftir af MAST.  Þegar úrbótum er lokið munu fyrirtækin fá samþykkisnúmer og  verða þar með á lista yfir samþykktar starfsstöðvar.

Til undirbúnings fundinum er bent á heimasíðu MAST þar sem er m.a. að finna tilvísanir í viðeigandi reglugerðir  (EB) 183/2005 (Reglugerð (IS) 108/2010), (EB) 852/2004 (Reglugerð (IS) 103/2010) og (EB) 853/2010 (Reglugerð (IS) 104/2010) sem fjalla um skyldur stjórnenda matvælafyrirtækja.  Almennar hollustuháttakröfur er að finna í viðauka II í reglugerð (EB) 852/2004 og sérstakar kröfur til dýraafurða í viðauka II og III í reglugerð (EB) 853/2004.

Fundurinn verður haldinn í Reykjavík þann 25. október frá kl. 12:30 - 17:00 og á Akureyri 26. október kl. 12:30 - 17:00. Hann er ætlaður stjórnendum fóðurfyrirtækja og fyrirtækja sem vinna matvæli úr dýraafurðum og ýmsum aðilum sem tengjast slíkri starfsemi. Þeir sem óska eftir að sitja fundinn eru beðnir um að skrá sig til þátttöku á netfanginu
mast@mast.is eigi síðar en 21. september n.k. Nánari dagskrá  og upplýsingar um fundarstað og tíma verða sendar síðar til allra þeirra sem hafa skráð sig á fundinn. Fundurinn verður haldinn á íslensku en erlendir fyrirlesarar munu flytja erindi sín á ensku.

Þátttakendur fá tækifæri til að bera fram spurningar á fundinum.


Getum við bætt efni síðunnar?