Fara í efni

Könnun: Eftirlit með heilsu starfsfólks

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og skoðunarstofur í sjávarútvegi munu á næstu mánuðum gera könnun á því hvort matvælafyrirtæki séu að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra varðandi eftirlit með heilsu starfsfólks. Könnunin mun standa frá maí til nóvember 2008. Kannað verður hvort heilsufarsskýrslur og/eða læknisvottorð séu til staðar fyrir þá starfsmenn sem vinna við óvarin matvæli.

Unnið verður úr gögnunum eins fljótt og auðið er. Stefnt er að birta skýrslu um könnunina fyrir lok desember 2008.

Reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla nr. 522/1994.

Viðauki 2 Almennt hreinlæti

3. Forráðamenn matvælafyrirtækja skulu við ráðningu starfsfólks bera ábyrgð á að það framvísi læknisvottorði (ekki eldra en 7 daga) og síðan árlega eða oftar ef þurfa þykir. Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að læknisvottorðum og getur jafnframt krafist reglulegra heilsufarsskoðana starfsfólks. Heimilt er að víkja frá kröfu um læknisvottorð þegar matvælafyrirtæki láta starfsfólk fylla út stöðluð eyðublöð sem Umhverfisstofnun  lætur í té, þar sem fram koma upplýsingar um heilsufar þess.

Reglugerð um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða nr. 233/1999

Viðauki 3, B. Almennar kröfur um persónulegt hreinlæti starfsfólks.

Hver sá sem ráða á til að vinna við fiskafurðir og handleika þær skal leggja fram læknisvottorð sem staðfestir að ekkert sé því til fyrirstöðu að hann annist þessi störf. Heilbrigðisskoðun starfsfólks skal haga samkvæmt opinberum reglum þar um.

Reglugerð um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötpökkunarstöðvum þeirra nr. 40/1999.

5. Heilsufarsskoðun á starfsfólki:

5.1. Starfsfólk skal fara í læknisskoðun einu sinni á ári. Á læknisvottorði skal koma fram hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að viðkomandi starfsmaður megi vinna við ferskt kjöt. Einnig skal starfsmaður útfylla heilsufarsskýrslu með lækni og upplýsa hvort hann hafi nýlega fengið niðurgang/magakveisu, kvef/hósta eða smitsjúkdóm. Enn fremur skal hann með undirskrift sinni á heilsufarsskýrslu staðfesta loforð um að tilkynna verkstjóra/yfirmanni tafarlaust um veikindi, hálsbólgu eða sár á fingrum er gætu gert hann óhæfan til að starfa við matvæla.


Getum við bætt efni síðunnar?