Fara í efni

Kisur í heimilisleit

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dýrahjálp Íslands heldur ættleiðingardag á Valentínusardaginn nk. sunnudag kl. 12-15 í sal gæludýr.is á Korputorgi. Þar verður hægt að ættleiða ketti sem Matvælastofnun tók úr vörslu umráðamanns sl. haust en þeim var haldið við bágar aðstæður í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík.

Þær kisur sem voru veikar eða sýktar hafa nú náð sér og eru tilbúnar til að eignast framtíðarheimili hjá dýravinum. Af köttunum 50 sem Matvælastofnun lagði hald á verða 12-14 á ættleiðingardeginum. Þrettán kettir hafa þegar fundið framtíðarheimili fyrir tilstilli Dýrahjálpar, auk fjögurra kettlinga. Enn á eftir að ljúka bólusetningu á fáeinum köttum sem ekki verða til úthlutunar í þessari umferð.

Fólk getur mætt og skoðað dýrin en það fer ekki með dýrin heim eftir viðburðinn. Starfsmenn Dýrahjálpar veita nánari upplýsingar um ættleiðingarferlið.

Matvælastofnun þakkar Dýrahjálp og öðrum sem komu að málinu fyrir þeirra framlag við að finna köttunum nýtt heimili.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?