Fara í efni

Kæru á hendur Matvælastofnun vísað frá

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýlega féll úrskurður hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í máli Dýralæknisþjónustu gegn Matvælastofnun. Málið kom upp árið 2014 þegar Matvælastofnun auglýsti eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðari byggðum landsins. Dýralæknisþjónustan var ósátt við þá samninga sem Matvælastofnun gerði að loknu auglýsingaferlinu og taldi stofnunina ekki hafa staðið við fyrirheit um að finna varanlega lausn á málinu sem kærandi gæti sætt sig við. Dýralæknisþjónustan kærði því afgreiðslu Matvælastofnunar á málinu til ráðuneytisins.

Kærumálið snerist í raun ekki um efnislega hlið málsins heldur hvort kæruréttur væri yfirleitt fyrir hendi í máli sem þessu. Matvælastofnun hélt því fram að engin stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin þegar ákveðið var að ganga til samninga við ákveðna aðila. Engin ákvörðun hefði verið tekin um rétt eða skyldu manna heldur gengið til hefðbundinnar samningagerðar. Kæruréttur væri því ekki fyrir hendi heldur ætti kærandi þess kost að leita til dómstóla væri hann ósáttur. Einungis stjórnvaldsákvarðanir væru kæranlegar til ráðuneytis og hér væri ekki um slíka ákvörðun að ræða.

Kærandi hélt því hins vegar fram að við afgreiðslu málsins hefði stofnunin verið í hlutverki stjórnvalds. Ákvörðun Matvælastofnunar um að ganga til samninga við ákveðna aðila hefði verið stjórnvaldsákvörðun, enda sé stofnuninni falið með reglugerð að auglýsa eftir umsækjendum og annast samningagerð.

Ráðuneytið úrskurðaði Matvælastofnun í vil og vísaði málinu frá, þar sem það væri ekki á forræði ráðuneytisins. Ákvörðun stofnunarinnar um að ganga til samninga við aðra aðila en kæranda hefði ekki verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun heldur ákvörðun um kaup á þjónustu frá verktaka. Ákveðnar skyldur hvíldu vissulega á opinberum aðilum við slík kaup, en það væri ekki ráðuneytisins að endurskoða slíkar ákvarðanir.


Getum við bætt efni síðunnar?