Fara í efni

Kæling matvæla eftir eldun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Árlega standa Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna fyrir sameiginlegum eftirlitsverkefnum. Verkefnin standa yfir í afmarkaðan tíma og er þá lögð áhersla á ákveðið, afmarkað málefni. Að þessu sinni var sjónum beint að kælingu matvæla eftir eldun en ónóg og/eða of hæg kæling matvæla eftir eldun er ein meginorsök matarborinna sjúkdóma.

Sjö heilbrigðiseftirlitssvæði auk Matvælastofnunar tóku þátt í eftirlitsverkefninu. Verkefnið skiptist í tvennt:

  1. Eftirlitsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Matvælastofnunar heimsóttu 26 fyrirtæki og öfluðu upplýsinga um hvernig matvælaframleiðendur, full- eða hálf eldaðra rétta, standa að kælingunni.
  2. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna gerðu könnun á því hve meðvitaðir matvælaframleiðendur eru um þær hættur, sem leynst geta í framleiðsluvörunum og hvernig þeir tryggi öryggi matvælanna, en veigamikill þáttur í því að tryggja öryggi matvæla er að standa rétt að kælingu eftir eldun. Könnunin var gerð meðal 40 fyrirtækja, þ.m.t. fyrirtækin 26 sem heimsótt voru sbr. tölulið 1.

Niðurstöður úr heimsóknum voru þær að í 25 fyrirtækjum af 26, sem heimsótt voru, var það mat eftirlitsmanns að rétt væri staðið að kælingu matvæla.

Niðurstöður könnunar sýna að framleiðendur eru nokkuð meðvitaðir um nauðsyn kælingar og hvernig tryggja megi öryggi matvælanna. Flestir þátttakendur töldu helstu hættu vegna framleiðsluferilsins, þar sem matvæli eru kæld eftir eldun, vera sjúkdómsvaldandi örverur. Rúmur fjórðungur svarenda taldi enga hættu fylgja framleiðsluferlinu, mögulega vegna þeirra öryggisráðstafana sem gerðar eru. Flestir framleiðendur sögðust hafa skilgreint verklag við kælinguna en aðeins tæpur helmingur var með verklagið skriflegt. Flestir gerðu sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja framleiðsluferlinu og telja öryggi matvælanna tryggt með þeirri kæliaðferð sem notuð er.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?