Fara í efni

Innri úttektir á opinberu eftirliti með matvælum, fóðri, dýraheilbrigði, dýravelferð og plöntuheilbrigði. Samantekt á niðurstöðum úttekta 2024.

Matvælastofnun starfrækir kerfi innri úttekta á opinberu eftirliti með matvælum, fóðri, heilbrigði og velferð dýra. Reglugerð um opinbert eftirlit gerir kröfu um að slíkar úttektir séu framkvæmdar árlega og með skipulögðum hætti. Gefnar eru út árlegar áætlanir um innri úttektir þar sem úttektarþegi er tilgreindur og umfangi og markmiðum lýst. Langtíma úttektaáætlun til margra ára (LÚMA) byggir á áhættumati á framkvæmd eftirlits og lýsir áætlun um áherslur og efni innri úttekta á fimm ára tímabili. Nánari upplýsingar um innri úttektir og úttektakerfi og áætlanir eru á vefsíðu Matvælastofnunar. Úttektirnar eru framkvæmdar samkvæmt skráðu verklagi sem gefið er út í gæðahandbók Matvælastofnunar.

Á árinu voru framkvæmdar tvær úttektir á eftirliti Matvælastofnunar en einni var af ýmsum ástæðum frestað fram á síðari hluta 2025. Allajafna er miðað að því að framkvæma 3 úttektir á ári.

Eftirlit með áburði

Í ljósi þess að ný EB löggjöf var að taka gildi á Íslandi þegar úttektin fór fram var ákveðið að hún skyldi beinast að því að lýsa því hvernig eftirliti hefur verið háttað á síðustu árum og hvernig það muni mögulega þróast með tilkomu nýrrar reglugerðar um áburð. Umfang þeirrar reglugerðar er töluvert meira en eldri gerðar og margir þættir í framkvæmd opinbers eftirlits sem rétt er að huga að. Tímasetning á framkvæmd úttektarinnar tók einnig mið af þeirri staðreynd að reynslumikill fagsviðsstjóri áburðarmála var að láta störfum hjá stofnuninni sökum aldurs og með honum færi mikil þekking á málaflokknum.

Því var ekki um hefðbundna innri úttekt að ræða sem beinist að því að skoðað hvort fyrirhuguðu fyrirkomulagi eftirlitskerfis er framfylgt og hvort kerfið væri skilvirkt og hentugt heldur frekar um svokallaða ´fact-finding´ úttekt sem miðar að því að kortleggja stöðuna og afla þannig gagna og upplýsinga fyrir stjórnendur og ráðuneyti til frekari úrvinnslu og þróunar í málaflokknum.

Heildarútkoma

  • Eftirliti með áburði hefur verið sinnt eftir bestu getu á síðustu árum, öllum skráningum sinnt (í access), sýnatökur farið fram og ársskýrsla birt.
  • Skráð verklag þarfnast endurskoðunar og uppfærslu. Útbúa þarf nýtt verklag fyrir þá þætti starfsins sem uppá vantar.
  • Skráningar innlendra fyrirtækja og leyfi þarf að yfirfara og uppfæra. Bæta þarf framvindu eftirlits.
  • Tilgreina þarf hvernig eftirliti með nýtingu fiskeldismykju frá landeldi sem áburð verði háttað.
  • Endurskipuleggja þarf eftirlit í málaflokknum í ljósi nýrrar löggjafar. Reglurnar þarf að kynna fyrir innflytjendum og innlendum framleiðendum.
  • Skipuleggja þarf þjálfun viðtakandi starfsmanns í starf fagsviðsstjóra áburðarmála.
  • Því er beint til stjórnvalda að taka lög nr. 22/1994 til endurskoðunar varðandi kröfu um skráningu alls áburðar gegn gjaldi.
  • Skyldur MAST varðandi upplýsingagjöf og gagnaskil til annarra aðila/stofnana þarf að ræða.

 

Eftirlit með loðdýrum (minkum)

Framvinda eftirlits á loðdýrabúum hefur ekki verið í samræmi við áhættumat og starfsmarkmið LEMA. Þó er ekki útilokað að farið verði á öll bú fyrir lok ársins og framvinda náist í ár.

Útgefið skjalfest verklag liggur ekki fyrir en stuðst er við fyrri skýrslur og reglugerð í eftirliti.

Með fækkun búa hefur á síðustu árum ekki verið lögð mikil áhersla á þjálfun starfsmanna í eftirliti með velferð loðdýra. Nýr eftirlitsdýralæknir (ED) í SA umdæmi fylgdi eftirlitsmanni í það eftirlit sem framkvæmt var sem hluti af úttektinni og fékk við það handleiðslu.

Ekkert bú hefur tilkynnt til MAST þegar aflífun stendur fyrir dyrum. Af hálfu sérgreinadýralækna hefur vinna verið lögð í að halda úti lista yfir þá sem hafa setið námskeið og hafa hæfisskírteini sem krafist er í löggjöf. Skv. reglugerð 1277/2014 má aflífun minka aðeins fara fram undir beinu eftirliti eða í viðurvist handhafa hæfisskírteinis gefnu út af Matvælastofnun í samræmi við reglur um vernd dýra við aflífun.


Getum við bætt efni síðunnar?