Fara í efni

Innlausn á greiðslumarki mjólkur 1. maí 2019

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á öðrum innlausnardegi ársins 2019 fyrir greiðslumark mjólkur þann 1. maí var greiðslumark 3 búa innleyst og 90 framleiðendur lögðu inn kauptilboð. Innlausnarvirði greiðslumarks mjólkur er 100 krónur á lítra á árinu 2019 og annast Matvælastofnun innlausn greiðslumarks. Innlausn greiðslumarks mjólkur fer fram 1. mars, 1. maí og 1. nóvember ár hvert.

Samkvæmt búvörusamningum, sem tóku gildi þann 1. janúar 2017, skulu framleiðendur sem teljast nýliðar eða hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark á árunum 2013-2015 hafa forgang að kaupum 50% þess greiðslumarks sem Matvælastofnun hefur innleyst. Sá pottur skiptist síðan jafnt á milli forgangshópanna skv. 10. gr. reglugerðar nr. 1261/2018 um stuðning við nautgriparækt og skiptist svo hlutfallslega í samræmi við þann lítrafjölda sem óskað var eftir af framleiðendum í þeim hópum. Það greiðslumark sem þá er eftir er til úthlutunar öðrum kaupendum greiðslumarks og kaupendum í forgangshópum, að frádregnu því magni sem þeir fengu úthlutað úr forgangspotti.

Á innlausnardeginum 1.maí  innleysti Matvælastofnun, fyrir hönd ríksins, greiðslumark 3 framleiðenda samtals 22.300 lítra að upphæð 2.230.000 krónur. Matvælastofnun úthlutaði 5.575 lítrum úr forgangspotti 1, 10% umframframleiðslupotti, 5.575 lítrum úr forgangshópi 2, nýliðahópi, og loks 11.150 lítrum úr almennum potti. Tilboð um kaup á greiðslumarki voru frá 90 framleiðendum og var alls óskað eftir 8.702.000 lítrum. Í forgangi 1, framleiðendur sem höfðu framleitt 10% umfram greiðslumark á viðmiðunarárunum, voru 43 framleiðendur og í nýliðaforgangi voru 16 framleiðendur.



Getum við bætt efni síðunnar?