Fara í efni

Innflutningur og innköllun á Pekingönd

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun greindi frá innköllun á Pekingönd mánudaginn 9. febrúar, eftir að salmonella greindist í vörunni í eftirlitsverkefni stofnunarinnar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Við nánari skoðun Matvælastofnunar á fylgiskjölum vegna flutnings vörunnar til landsins kom í ljós að henni fylgdi ekki tilskilið vottorð þess efnis að hún væri laus við salmonellu. Í stað slíkrar staðfestingar fylgdi skjal frá erlendri rannsóknarstofu sem sýndi salmonellumengun í einu af fjórum sýnum sem tekin voru til rannsóknar. Ljóst er að mistök hafa átt sér stað við innflutning vörunnar sem kallar á aukna vöktun og endurbætt verklag.

Strangar kröfur gilda um salmonellu í alifuglum á Íslandi. Hér er óheimilt að slátra salmonellumenguðum alifuglum. Ef salmonella greinist í alifuglum við slátrun ber að innkalla vörurnar, hafi þær farið á markað. Innflutningsreglur hafa sömuleiðis það markmið að hindra að innfluttir salmonellumengaðir alifuglar komist á markað hérlendis.

Samkvæmt reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins skal innflytjandi hrárrar vöru leggja fram vottorð sem staðfestir að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkla. Í þessu tilfelli var það ekki gert. Þess í stað lagði innflytjandi vörunnar fram fylgiskjal sem sýndi að salmonella hafði greinst í einu sýnanna. Því hafa orðið mistök af hálfu innflytjanda og einnig hjá Matvælastofnun, því starfsmanni stofnunarinnar yfirsást að salmonella hafði greinst í einu sýnanna sem tekið var í framleiðslulandi vörunnar og hefði varan því ekki átt að fara í dreifingu hérlendis.

Í ofangreindu eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga voru tekin sýni úr erlendu alifuglakjöti á íslenskum markaði. Af 115 sýnum greindist aðeins eitt með salmonellu og var það umrædd Pekingönd. Í öðru sýni sem tekið var af sömu vöru greindist þó ekki salmonella. Á heildina litið er því ljóst að innflutningseftirlit, reglur um innflutning afurða og markaðseftirlit skila heilnæmum vörum á markað. Hins vegar urðu mistök í þessu tilfelli, sem leiddu til þess að menguð vara komst á markað. Í ljósi þess að stofnunin á hluta af sök mun hún fara yfir verklag sitt og árétta gagnvart innflytjendum mikilvægi þess að rétt og rekjanleg gögn fylgi öllum sendingum matvæla til landsins. Matvælastofnun lítur málið alvarlegum augum, en samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis er ekki vitað um matarsýkingar sem rekja megi til vörunnar. Um leið er rétt að minna neytendur á að fylgja ætíð leiðbeiningum um meðferð og matreiðslu alifugla til að forðast hættu á sýkingum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?