Fara í efni

Innflutningur á fæðubótarefnum stöðvaður í alþjóðlegri aðgerð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun tók þátt í alþjóðlegri aðgerð gegn innflutningi og sölu á fölsuðum og ólöglegum matvælum og drykkjum undir heitinu Opson VI frá 1. desember 2016 til 31. mars 2017. Í þetta skipti var ákveðið hérlendis að skoða sendingar af fæðubótarefnum til einstaklinga, einkum frá netverslunum í Bandaríkjunum. Fjöldi sendinga var stöðvaður vegna lyfjavirkra efna sem ekki eru leyfð í fæðubótarefnum hérlendis og telur Matvælastofnun fulla ástæðu til að vara við kaupum á fæðubótarefnum á internetinu.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Tollinn. Matvælastofnun skoðaði sendingar af fæðubótarefnum til einstaklinga. Fjöldi sendinga innihélt fæðubótarefni með lyfjavirkum efnum sem ekki eru lögleg hérlendis. Sum fæðubótarefnin innihéldu glúkósamín og melatónín sem eru skilgreind sem lyf hérlendis og önnur heilörvandi lyfjavirk efni (psychostimulants/nootropics) sem eru sömuleiðis ekki leyfð í fæðubótarefnum. Fæðubótarefni sem stöðvuð voru við innflutningseftirlit komu aðallega frá netverslunum í Bandaríkjunum. 

Auk Íslands tóku 60 önnur lönd þátt í Opson VI, hvert land með sínar áherslur. Framleiðslan sem gerð var upptæk í verkefninu, vegna mögulegrar hættu á að hún gæti verið skaðleg heilsu almennings, var mjög fjölbreytt, allt frá áfengi, sódavatni, kryddteningum, sjávarréttum og ólívuolíu til lúxusvarnings svo sem kavíars. Í ár var áfengi það sem mest var falsað en einnig var gert upptækt mikið magn af kjöti og sjávarfangi. Tæplega 10 þúsund tonn af ólöglegum matvælum, rúmar 26.4 milljónir lítra af ólöglegum drykkjarvörum og 13 milljónir eininga af annarri ólöglegri framleiðslu voru gerð upptæk í aðgerðunum. Áætlað andvirði hins ólöglega varnings nam 230 milljónum evra.

Opson-aðgerðin sýnir að vörusvik eiga sér stað víða í matvælaframleiðslu og að enginn flokkur matvæla eða drykkja er undanskilin. Hún undirstrikar hve mikilvægi það er fyrir almenning, eftirlit og tollyfirvöld að vera á varðbergi gagnvart vörusvikum og heilsuspillandi vörum í umferð og mikilvægi samstilltra alþjóðlegra aðgerða í að uppræta ólöglega starfsemi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?