Fara í efni

Innanlandsvog

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í samkomulagi ríkisins og Bændasamtaka Íslands um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem gert var sl. vor var m.a. ákveðið að setja á fót svokallaða „innanlandsvog“. Hlutverk hennar er að skilgreina þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti, m.a. með það að markmiði að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar skiptist á þann hluta heildarframleiðslunnar sem ætluð er fyrir innanlandsmarkað. 

Matvælastofnun, búnaðarstofa, hefur þróað líkan fyrir innanlandsvog sem byggir á sölu sl. 24 mánaða og líklegri söluþróun. Ákveðið hefur verið að birta innanlandsvog í tvennu lagi, þ.e. annars vegar fyrir dilkakjöt og hins vegar fyrir kjöt af fullorðnu fé. 

Á grundvelli þessa líkans liggur áætlun framleiðsluársins 2019 – 2020 nú fyrir og var staðfest af framkvæmdanefnd búvörusamninga þann 13.11.2019 í samræmi við ákvæði í endurskoðuðum sauðfjársamningi. Útgáfa innanlandsvogar á fyrsta ári hennar er seinna á ferðinni en verður framvegis. Á næstu árum er gert ráð fyrir að birta hana eigi síðar en 20. ágúst ár hvert fyrir komandi ár.

Samhliða innanlandsvoginni hefur búnaðarstofa Matvælastofnunar útbúið spá um framleiðslu sem byggir á fjölda vetrarfóðraðra kinda og framleiðslu pr. vetrarfóðraða kind sl. 3 ár. Með því er einnig hægt að meta útflutningsþörf á komandi framleiðsluári. 

Dilkakjöt

Innanlandsvog fyrir dilkakjöt framleiðsluárið 2019 – 2020 er 7.129 tonn. Það er sú framleiðsla sem þarf til að mæta eftirspurn eftir heilum skrokkum og skrokkhlutum, þ.e. frampörtum, hryggjum, lærum og slögum. Það er eftirspurn eftir lærum sem ræður áætluðu heildarmagni. Til þess að fullnægja eftirspurn eftir lærum verður til umframframleiðsla, og þar með útflutningsþörf, á frampörtum, hryggjum og slögum, alls um 420 tonn. 

Áætluð heildarframleiðsla á dilkakjöti er 8.670 tonn og miðað við hana er útflutningsþörf á dilkakjöti alls 1.961 tonn.

Kjöt af fullorðnu

Innanlandsvog fyrir kjöt af fullorðnu fé framleiðsluárið 2019 – 2020 er 921 tonn. Það er sú framleiðsla sem þarf til að mæta innanlandseftirspurn eftir heilum skrokkum og skrokkhlutum. Eftirspurn eftir hryggjum ræður framleiðsluþörfinni fyrir innanlandsmarkað. Spá um heildarframleiðslu er 1.587 tonn og heildarútflutningsþörf er 992 tonn.


Getum við bætt efni síðunnar?