Fara í efni

Hvað er Súna?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

   Súna er nýyrði og þýðing á enska orðinu zoonoses. Súna var fyrst notað á sjötta áratug síðustu aldar og er notað yfir sjúkdóma sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna. Orðið súna tekur fallbeygingum eins og kisa enda lipurt og þjált eins og kisur. Súnur eru sjúkdómar af ýmsum uppruna sem berast á milli manna og dýra annað hvort beint eða óbeint. Menn geta smitað dýr og dýr geta smitað menn. Hundaæði er dæmi um sjúkdóm sem berst beint frá dýrum í menn og salmonella er dæmi um sjúkdóm sem berst óbeint (með matvælum) frá dýrum í menn. Berklar eru dæmi um sjúkdóm sem getur borist úr mönnum í dýr og öfugt.
  
Súnuvaldar geta verið veirur, bakteríur, sveppir eða sníkjudýr. Súnuvaldurinn sem veldur hundaæði er veira en sá sem veldur sullaveiki er sníkjudýr. Til að verjast súnum hafa verið sett ákvæði í ýmis lög og reglugerðir sem kveða á um sýnatökur, viðbrögð og varnir. Gott dæmi um varnir var t.d. krafan um bandormahreinsun hjá hundum til að fyrirbyggja að sullur myndi berast frá hundum í menn. Flestir vita t.d. að til eru ákvæði í reglugerðum um varnir gegn salmonellu og kampýlóbakter.

Nýlega tóku gildi hér á landi sérstakar reglur um vöktun súna og súnuvalda. Með þessum breytingum er í fyrsta sinn settar heildarreglur um vöktun og varnir gegn súnum. Auk þess taka nýju reglurnar til matarsýkinga og þols gegn sýklalyfjum. Tilgangi reglugerðarinnar er lýst í 1. gr. en hún hljóðar svo: „Tilgangurinn með þessari reglugerð er að sjá til þess að súnur og súnuvaldar og tengt þol þeirra gegn sýklalyfjum sé vaktað á réttan hátt og tilhlýðileg faraldsfræðileg rannsókn fari fram á uppkomu matarborinna sjúkdóma þannig að unnt sé að safna upplýsingum sem eru nauðsynlegar til þess að meta viðkomandi leitni og uppruna.“

Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru þau að stjórnvöldum er gert skylt að sjá til þess að tilteknar súnur og súnuvaldar og þol gegn sýklalyfjum sé vaktað, að faraldsfræðilegar rannsóknir vegna matarsýkinga séu framkvæmdar og að upplýsingaskipti séu tryggð. Tryggja skal samstarf opinberra aðila á þessu sviði því margir koma að súnum, læknar, dýralæknar og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar og á heimasíðu stofnunarinnar
er fræðsluefni um súnur og yfirlit yfir niðurstöður reglulegra rannsókna á súnuvöldum í fóðri, dýrum og afurðum.


Getum við bætt efni síðunnar?