Fara í efni

Hundaeigandi sviptur hvolpi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur tekið hvolp úr vörslu eiganda á höfuðborgarsvæðinu. Ástæða vörslusviptingar er ofbeldi sem umráðamaður beitti hvolpinn og sinnuleysi.

Vörslusviptingin fór fram eftir að Matvælastofnun bárust ábendingar um illa meðferð á hvolpi. Eftir skoðun á málsatvikum var það mat stofnunarinnar að málið þyldi ekki bið og var því gripið strax til vörslusviptingar.

Í lögum um velferð dýra segir að skylt sé að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Ill meðferð dýra er óheimil. Í reglugerð um velferð gæludýra segir m.a.: 

  • Gæludýrum skal ætíð sýnd fyllsta nærgætni. Umráðamaður skal taka tillit til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda og aldursskeiða að því er varðar fóðrun, umhyggju, hreyfingu, félagsskap og hitastig. Bannað er að beita gæludýr illri meðferð.
  • Umráðamaður hunds skal stuðla að réttri meðferð í samræmi við eðli hans, eiginleika og aldur og ofgera honum ekki á nokkurn hátt. 
  • Umráðamenn gæludýra skulu afla sér þekkingar á eðli og eiginleikum dýra sem þeir halda til að geta uppfyllt þarfir þeirra.

Unnið er að því að finna hvolpinum nýtt heimili.

Mynd tengist ekki frétt með beinum hætti


Getum við bætt efni síðunnar?