Fara í efni

Hringskyrfi staðfest á bæ í Skagafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Smitsjúkdómurinn hringskyrfi hefur verið staðfestur á bæ í Skagafirði. Fyrstu varúðarráðstafanir hafa verið fyrirskipaðar en ákvörðun um nánari aðgerðir verður tekin á næstu dögum. Síðast liðið haust greindist hringskyrfi á bæ í Eyjafirði en hafði þá ekki greinst hér á landi síðan árið 1988. Þetta gefur tilefni til að óttast að hringskyrfi sé útbreiddara en talið hefur verið. Það er því ástæða til að hvetja alla sem umgangast nautgripi að hafa augun opin fyrir einkennum sem gætu bent til sjúkdómsins og hafa samband við héraðsdýralækni ef minnsti grunur vaknar.

Hringskyrfi orsakast af húðsvepp sem nefnist Trichophyton verrucosum. Einkenni sjúkdómsins eru hringlaga hárlausir blettir í húð. Smitið berst á milli dýra með beinni snertingu en getur einnig borist með öðrum dýrum, fólki og ýmsu öðru í umhverfi dýranna. Sjúkdómurinn er landlægur í flestum löndum í heiminum og veldur töluverðum skaða.

Matvælastofnun leggur mikla áherslu á að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdómsins hér á landi og útrýma honum fljótt. Á bænum sem sjúkdómurinn greindist á í haust var farið í umfangsmiklar aðgerðir sem fólu m.a. í sér böðun á gripum ásamt þrifum og sótthreinsun á húsum, innréttingum og tækjabúnaði. Ekki hefur orðið vart einkenna á fleiri gripum en búið verður undir eftirliti í marga mánuði þar sem gró sveppisins eru mjög harðger og því ekki unnt að úrskurða að útrýming smitsins hafi tekist fyrr en að löngum tíma liðnum. Engin augljós smitleið er á milli þessara tveggja bæja í Eyjafirði og Skagafirði.

Hringskyrfi getur líka borist í fólk. Einkennin eru hringlaga útbrot í húðinni og kláði. Mikilvægt er að fólk leiti til læknis hafi það grun um að það hafi smitast.



Hringskyrfi á handlegg                                                                      

Hringskyrfi á nautgripi

Getum við bætt efni síðunnar?