Fara í efni

Hreinleiki kjötvara

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Í tilefni af umræðu um kjötvörur í fjölmiðlum vill Matvælastofnun kom eftirfarandi á framfæri.

Matvælastofnun hefur ekki ástæðu til að ætla að verið sé að brjóta reglur varðandi innihald kjötvara, en mun skoða þessi mál nánar í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.

    Um kjötvörur gildir reglugerð nr. 331/2005 um kjöt og kjötvörur, auk þess lög og reglur sem almennt gilda um matvæli. Eftirlit með kjötvinnslum og verslunum er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Kjötvinnslur í tengslum við sláturhús eru þó undir eftirliti Matvælastofnunar. Matvælastofnun hefur yfirumsjón með eftirliti heilbrigðiseftirlits.

Merkja þarf öll innihaldsefni í kjötvörum eins og í öðrum matvælum.  Á markaði eru bæði hreinar kjötvörur (s.s. nautgripahakk) og blandaðar kjötvörur (s.s. kjötfars) og framleiðendur eiga að merkja öll innihaldsefni

Hreinar kjötvörur

Vöruheiti sem eru frátekin fyrir hreinar kjötvörur eru:


  • Hamborgari:  Má eingöngu innihalda nautgripakjöt
  • Hakk: Skal innihalda hreint kjöt
  • Kjöttegund í heiti: Ef kjöttegund kemur fram í heiti má varan eingöngu innihalda þá tegund. Ef fleiri en ein tegund kemur fram í heiti á hakki, eða ef kjöttegunda er ekki getið í heiti hakks, skulu kjöttegundir og magn hverrar tegundar koma fram í % í innihaldslýsingu.


Ef vatni er bætt í kjöt í heilum stykkjum skal tilgreina það í tengslum við vöruheiti ef magn þess fer yfir 5% í soðnum vörum eða 10% í hráum vörum. Vatn á að merkja í innihaldslýsingu ef það er 5% eða meira af nettóþyngd vörunnar.

Blandaðar kjötvörur

Ef öðrum innihaldsefnum en kjöti er blandað við kjötið eru það blandaðar kjötvörur. Merkja verður öll innihaldsefni á umbúðir. Ef varan er seld án umbúða skal seljandi geta veitt kaupanda sömu upplýsingar. 


  • Kjöttegund í heiti: Kjöt og fita skal eingöngu vera af þeirri kjöttegund/þeim kjöttegundum.
  • Borgari:  Merkja verður öll innihaldsefni. Ef próteingjafar s.s. sojaprótein eru notaðir (yfir  3% prótein) verður að merkja magn þeirra í innihaldslýsingu.
  • Hakk (án kjöttegundar í heiti):  Merkja verður öll innihaldsefni. Ef próteingjafar s.s. sojaprótein eru notaðir (yfir  3% prótein) verður að merkja magn þeirra í innihaldslýsingu.


Um kjötvörur gildir almennt að merkja þarf magn kjöts í % í innihaldslýsingu.

Varðandi notkun aukefna gildir reglugerð nr. 285/2002 um aukefni, þar sem fram kemur hvaða aukefni má nota í hvaða vörur. Merkja þarf öll aukefni sem notuð eru í innihaldslýsingu vörunnar.



Getum við bætt efni síðunnar?