Fara í efni

Hrefnu komið til bjargar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hrefnukálfur festist í fjörunni á Þórshöfn á mánudag. Matvælastofnun var tilkynnt um hvalrekann og mat dýralæknir stofnunarinnar ástand dýrsins nægilega gott til að réttlæta björgunaraðgerðir. Losa þurfti dýrið tvisvar áður en það náði að synda út úr höfninni.

Hrefnukálfurinn synti inn í höfnina á Þórshöfn á mánudag og flæddi undan honum í fjörunni. Hvalreka ber m.a. að tilkynna til Matvælastofnunar og hafði lögregla samband við stofnunina. Dýralæknir Matvælastofnunar lagði mat á ástand dýrsins út frá myndum sem teknar voru á vettvangi. Ástand dýrsins var metið nægilega gott til að framkvæma mætti björgunaraðgerðir í stað aflífunar. Björgunarsveitarmenn grófu rás fyrir dýrið og losuðu það, í samráði við dýralækni stofnunarinnar, við hækkandi sjávarföll. Að losun lokinni synti hvalurinn aftur á land og festist á ný en slíkt er ekki óalgengt á meðan dýrin eru að ná áttum eftir strand. Losa þurfti dýrið aftur og náði það að synda út úr hafnargarðinum um kvöldið.

Hvalreki á Þórshöfn

Matvælastofnun vekur athygli á verklagsreglum um aðkomu opinberra aðila þegar hvali rekur á land.

Ítarefni



Getum við bætt efni síðunnar?