Fara í efni

Hnúfubakur losaður úr neti við Langanes

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Landhelgisgæslunni um hnúfubak sem fastur var í veiðarfærum báts undan  Langanesi í morgun. Búið er að losa hvalinn og talið að honum hafi ekki orðið meint af.

Í kjölfar tilkynningar frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var Viðbragðsteymi fyrir hvali í neyð virkjað og upplýsingum safnað. Út frá myndefni sem bátsverjar sendu til teymisins var hvalurinn greindur sem hnúfubakur og talið að um ungdýr væri að ræða. Hvalurinn var áætlaður um 12-14m á lengd en fullvaxin dýr geta verið 13-16m. Dýrið var töluvert flækt í netið með trjónu, horn og sporð. Lítilsháttar nuddáverkar voru á horni sem talið er að munu ekki há dýrinu.

Björgun hnúfubaks undan Langanesi
Skipverjar varðskipsins Þórs     Ljósmynd: Landhelgisgæslan

Varðskipið Þór var statt í um 35 sjómílna fjarlægð frá bátnum. Um borð voru starfsmenn með reynslu af hvalabjörgun en einnig voru leiðbeiningar frá teyminu sendar til varðskipsins, sem sigldi strax á vettvang. Skorið var á netið með hnífum á stöngum og tókst að fjarlægja netið að fullu.

Nýtt viðbragðsteymi fyrir hvali í neyð var stofnað síðasta vor. Teymið er skipað fulltrúum Matvælastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Háskóla Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið teymisins er að nýta sérfræðiþekkingu hlutaðeigandi aðila til að auka skilvirkni björgunaraðgerða vegna hvala í neyð.

Teymið var fyrst virkjað þegar 50 grindhvalir strönduðu á Reykjanesi í ágúst í fyrra. Útgáfa nýrrar viðbragðsáætlunar fyrir hvali í neyð er í smíðum hjá teyminu sem mun leysa af hólmi núgildandi verklagsreglur um hvalreka, hvað varðar lifandi dýr.


Getum við bætt efni síðunnar?