Hitastig í lönduðum afla seinni hluta júnímánaðar
Mikilvægustu þættirnir til að tryggja að íslenskar sjávarafurðir endi sem hágæðavara á borðum neytenda eru fólgnir í góðri meðhöndlun hráefnis allt frá veiðum til vinnslu og dreifingar. Þar gegnir góð og hröð kæling aflans lykilhlutverki. Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofa hafa fylgst með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla í sumar. Þ. 20. júní sl. birti MAST niðurstöður hitastigsmælinga fyrir fyrri helming júnímánaðar hér á heimasíðu sinni. Nú birtast hér niðurstöður tímabilsins frá 16. 30. júní.
Mælingar sýna að hitastig hefur hækkað um hálfa gráðu frá fyrri helmingi mánaðarins þegar litið er til allra mælinga. Mismunur þessi kemur einkum fram í hitastigi þess afla sem kældur er með ís eingöngu (þ.e. ekki í krapa) sem hefur hækkað um 0,8°C frá fyrri helmingi mánaðarins, þ.e. úr 2,6° í 3,4°C. Ljóst er að hitastig sjávar fer hækkandi og sjómenn þurfa að gera ráð fyrir að hitastig hækki enn í júlímánuði og verða því að auka við ísmagnið því hitastig í nýveiddum fiski er hið sama og í sjónum sem hann hefur haldið sig í. Einnig má gera ráð fyrir að umhverfishiti verði hærri í júlí en hann hefur verið í júní.
Þegar bornar eru saman hitastigsmælingar sem gerðar eru í afla strandveiðibáta annars vegar og í afla hefðbundinna dagróðrarbáta hins vegar, reynist hitastig vera að meðaltali í júní 2,6°C hjá strandveiðibátum en 2,9°C hjá dagróðrarbátum.
Starfsmenn MAST og Fiskistofu munu halda áfram mælingum á hitastigi í lönduðum afla í júlí og hvetja sjómenn til þess að bæta kælinguna enn frekar því ljóst er að hitastig sjávar mun hækka verulega í júlí. MAST mun birta reglulega niðurstöður þessa eftirlits á heimasíðu sinni í sumar.
Sjómenn eru einnig hvattir til að kynna sér bæklinga MATÍS og annað útgefið efni um kælingu fisks. Á kæligátt MATÍS www.kaeligatt.is má finna ýmsar leiðbeiningar um ísun og ísmagn sem þarf til kælingar sem og um annað er viðkemur góðri aflameðferð.