Fara í efni

Heimsókn frá Evrópusambandinu vegna dýraheilbrigðislöggjafar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dagana 1. til 2. desember s.l. komu hingað til lands tveir fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði dýraheilbrigðis til að fjalla um lifandi dýr og reglur þar að lútandi. Heimsóknin var liður í ferlinu varðandi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og var skipulögð af utanríkisráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Eins og fram kemur í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar með ályktun Alþingis um að fela ríkisstjórn að sækja um aðild að ESB, telur meirihlutinn rétt að gera kröfu um að undanþágunni um viðskipti með lifandi dýr verði haldið uppi í aðildarviðræðum. Vísað er í því efni til landfræðilegrar einangrunar landsins sem leitt hefur af sér búfjárstofna sem sérstök ástæða er til að vernda gegn beinni utanaðkomandi ásókn.


  Fyrri daginn var farið með fulltrúana á bú á Suðurlandi í hrossa-, sauðfjár- og nautgriparækt til að kynna fyrir þeim íslenskan landbúnað eins og hann gerist bestur. Markmiðið var að gera þeim grein fyrir mikilvægi landbúnaðarins sem atvinnugreinar á Íslandi og hversu miklu máli það skiptir fyrir búfjárræktina að hafa heilbrigð dýr. Á öllum bæjunum tóku hjón á móti gestunum sem höfðu síðar á orði að það hefði komið þeim á óvart hvað báðir aðilar tækju þátt í búrekstrinum af lífi og sál.

Síðari daginn var haldinn kynningarfundur á Selfossi þar sem boðið hafði verið fulltrúum Bændasamtakanna og búgreinafélaganna, ásamt sérgreinadýralæknum og öðru starfsfólki Matvælastofnunar. Fulltrúar ESB fóru yfir helstu lög og reglur ESB sem varða heilbrigði dýra og verslun með lifandi dýr og svöruðu fyrirspurnum þar að lútandi.
 
Fyrir liggur að framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til við aðildarríkin að samningaviðræður geti hafist um 12. kafla í aðildarviðræðunum, sem fjallar m.a. um dýraheilbrigði.  Næsta skref er að hefja vinnu við að móta samningsafstöðu Íslands hvað dýraheilbrigði varðar og undirbúa kröfur með vísindalegum og sögulegum rökum um nauðsyn þess að Íslendingar muni áfram stjórna sjálfir innflutningi á lifandi dýrum og erfðaefni þeirra.Getum við bætt efni síðunnar?